24.10.2013 10:20

Vonin GK 136, Brúsi SN 7 og Þröstur GK 211


                910. Vonin II GK 136, Brúsi SN 7 og 1213. Þröstur GK 211, í Njarðvíkurslipp © mynd Emil Páll, um 1990

910. Smíðaður hjá Dráttarbraut Vestmannaeyja hf. 1943. Yfirsmiður var Gunnar Marel Jónsson. Rak upp í fjöru innanvert í Sandgerði 17. feb. 1943, náð út aftur. Talin ónýt 21. nóv. 1991, bútaður niður í Skipasmíðastöð Njarðvíkur 5. nóv. 1992 og brenndur á áramótabrennur ofan við Innri-Njarðvík 31. des. 1992.

Nöfn: Vonin II VE 113, Vonin II GK 113, Vonin II SH 199, Vonin II SF 5, Vonin II ST 6 og Vonin II GK 136.


1213. Smíðanr. 37 hjá Slippstöðinni hf., Akureyri 1972 eftir teikningu Hjálmars R. Bárðarsonar og var nr. 4 af 14 raðsmíðaskipum í flokki 105 til 150 tonna stálskipa hjá Slippstöðinni. Úreldingastyrkur samþykktur í des. 1994, en hætt við að nota hann. Lengdur hjá Slippstöðinni hf., Akureyri 1973. Styttur og yfirbyggður hjá Skipasmíðastöðinni Herði hf., Njarðvik 1979.Fór í pottinn í Danmörku í feb.  2006, dreginn þangað af Stokksey ÁR 50.

Nöfn: Heimaey VE 1, Náttfari RE 75, Sigurfari VE 138, Stefnir VE 125, Þröstur GK 101, Þröstur GK 211, Látravík BA 66, Hafsúlan HF 77, Sindri GK 42 og Sindri SF 26.

Brúsi SN 7 var smíðaður í Noregi og kom til Njarðvíkur 19. jan. 1983, þar sem klára átti skipið, en ekkert varð úr því þar sem kvótamálin breyttust hér á landi og því stóð skipið uppi í slippnum þó svo að íslensk fyrirtæki sýndu áhuga á kaupum á því. Þar sem þetta skip hafði smíðanr. 7 hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur settu starfsmenn fyrirtækisins nr. SN 7 á skrokkinn og nafnið Brúsi. Í janúar 1995, hófst síðan lokafrágangur og lauk honum 22. júní sama ár og þá hafði verið sett á hann stýrishús, perustefni o.fl. Var Brúsi síðan sjósettur þennan dag. 22. júní 1995 og daginn eftir fór skorski báturinn Alert, með hann í togi til nýrrar heimahafnar í St. Monens á Fife í Skotlandi. Þar var frágangi lokið og skipið fékk nafnið Faitfull III, en ekki var það þó lengi í útgerð því það sökk eftir árekstur við annað skip veturinn 1998.