18.10.2013 18:28
Lítill fálki neitaði að yfirgefa skipið
bb.is:
Fálkanum virðist líka ágætlega í höndum starfsmanns Nave.
Lítill fálki, líklegast turnfálki (Falco tinnunculus) heiðrar starfsmenn Náttúrustofu Vestfjarða í Bolungarvík með nærveru sinni þessa dagana. Fálkinn settist á rannsóknaskipið Árna Friðriksson á dögunum á milli Grænlands og Íslands og tók Kristján Kristinsson skipverji fálkann og hlúði að honum. Þvoði hann grút af stélinu og gaf honum éta. Þegar reynt var að sleppa honum vildi hann ekki yfirgefa skipið. Ákveðið var þá að fara með hann til Náttúrustofu Vestfjarða, þar sem skipið var á leið til Ísafjarðar.
Þar mun fálkinn verða vistaður þar til að hann fær smá hold á sig og hægt verður að sleppa honum. Turnfálki er stéllangur, lítill fálki sem er lítið eitt stærri en smyrill. Turnfálkar eru algengir flækingar við Ísland og er algengastur hér á haustin, frá síðla í ágúst fram eftir október.
Frá þessu er greint á vef Nave.
