13.10.2013 11:44

Gamla Fagranes veldur deilum í San Fransisco

visir.is:

Gamli Djúpbáturinn við bryggju í San Fransisco.
Gamli Djúpbáturinn við bryggju í San Fransisco.
 
 

Gamla Fagranes, síðasta ferjan sem gegndi hlutverki Djúpbáts á Ísafjarðardjúpi, er nú tilefni deilna og blaðaskrifa í San Fransisco í Kaliforníu eftir að hafnaryfirvöld kröfðust þess að skipið yrði fjarlægt úr höfninni fyrir næstu mánaðamót.  Fimmtánhundruð manns hafa sent frá sér bænarskjal um að ákvörðunin verði afturkölluð og segja að um borð fari fram þýðingarmikið frumkvöðlastarf.

Skipið var í áætlunarsiglingum á Ísafjarðardjúpi um átta ára skeið, frá 1991 og þar til rekstri Djúpbátsins var hætt árið 1999. Illa gekk að finna kaupendur þar til efnaður bandarískur arkitekt af sænskum ættum, Thorsten Olle Lundberg, birtist óvænt tveimur árum síðar. Arkitektinn keypti Fagranesið, lét gera á því miklar endurbætur í Skipasmíðastöð Njarðvíkur árið 2001, og fékk síðan íslenska áhöfn í sjö vikna leiðangur til að sigla því um Panama-skurðinn alla leið til San Fransisco.

Hann gaf skipinu nýtt nafn, Maritol, innréttaði það sem lúxusheimili og kom meðal annars fyrir sundlaug um borð. Hann nýtti það sem einkaheimili, bundið við bryggju, og greiddi um 180 þúsund krónur í hafnargjöld á mánuði. Þannig vakti skipið mikla athygli og var meðal annars fjallað um það í New York Times og einnig í íslenskum fjölmiðlum á sínum tíma.

Þar hefur skipið legið undanfarin tólf ár en síðustu tvö ár hefur það verið nýtt sem frumkvöðlasetur og kallað Icebreaker, eða Ísbrjóturinn. Nú vilja hafnaryfirvöld í San Fransisco skipið burt og segja að samkvæmt reglum hafnarinnar sé óheimilt að nýta það sem heimili og að öll skip í höfninni verði að vera haffær.