11.10.2013 16:45

Loðnuleiðangri lokið og tillaga að aflamarki á komandi loðnuvertíð

 

Haustmælingar á loðnustofninum fóru fram á R/S Árna Friðrikssyni dagana 17. september - 4. október 2013 með það að markmiði að mæla stærð veiðistofns loðnu og meta magn ungloðnu. Á undanförnum áratug hefur reynst erfitt að mæla magn loðnu seint að hausti (nóv.-des.) sökum vestlægrar útbreiðslu og því var, líkt og árin 2010 og 2012, farið fyrr til rannsóknanna en áður. Af þeim sökum var unnt að fara mun víðar þar sem enginn lagnaðarís var til trafala eins og oft síðar á haustin.

Rannsóknasvæðið náði frá landgrunninu við Austur-Grænland í vestri frá um 73° N og suður með landgrunnskantinum að 65° 45’N, en auk þess til Grænlandssunds og Norðurmiða, allt austur að Sléttu. Loðna fannst mjög víða við og uppi á landgrunnsbrún Austur Grænlands og í Grænlandssundi að landgrunnsbrún norður af Kögri. Austar með Norðurlandi varð ekki vart loðnu. Enda þótt loðna fyndist á stóru svæði voru lóðningar yfirleitt fremur gisnar. 

Eins árs loðna fannst á svæði við Grænland (sunnan 70°N) og í Grænlandssundi austur undir Kögur (Mynd 1). Alls mældust um 60 milljarðar af ársgamalli ókynþroska loðnu sem er nokkuð hærra en mælst hefur að meðaltali frá árinu 2002, en töluvert minna en mældist að meðaltali árin 1991-2001 þegar loðnustofninn var stór. Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) mun gera tillögu um upphafs aflamark í maí n.k. fyrir vertíðina 2014/15, byggt á þessari mælingu á ungloðnu ásamt viðbótargögnum sem fást úr mælingu í janúar-febrúar og frá vertíðinni 2013/2014.

Eldri loðna hélt sig einkum á norðurhluta rannsóknasvæðisins við Austur Grænland og mældust rúm 600 þúsund tonn af kynþroska loðnu (tæpir 33 milljarðar fiska), sem gert er ráð fyrir að hrygni á komandi vertíð. Þar af var fjöldi tveggja ára loðnu um 25 milljarðar, sem samsvarar um 450 þúsund tonnum og fjöldi þriggja ára loðnu tæpir 7 milljarðar eða um 145 þúsund tonn (Tafla 1) Því er um 21 % hrygningarstofnsins í fjölda samkvæmt mælingunni þriggja ára loðna, en það hlutfall er með því hæsta sem mælst hefur seinasta áratug. Ástand loðnunnar var nálægt langtíma meðaltali.

Miðað við þessar mælingar og forsendur um náttúruleg afföll og vöxt fram að hrygningu má gera ráð fyrir að hrygningarstofninn verði um 560 þúsund tonn á hrygningartíma verði ekkert veitt. Samkvæmt aflareglu er gert ráð fyrir að skilja eftir 400 þúsund tonn til hrygningar. Hafrannsóknastofnun leggur því til að og heildaraflamark á vertíðinni 2013/2014 verði 160 þúsund tonn.

Hafrannsóknastofnun mun mæla veiðistofn loðnu að nýju í janúar/febrúar 2014 til samanburðar og mun endurskoða tillögur um heildaraflamark gefi niðurstöður þeirra mælinga tilefni til þess.