05.10.2013 19:26

Þorskkvótinn upp í 250.000 tonn 2016

ruv.is:

                                                 Þorskur. Mynd: Shutterstock.
 
 

Forstjóri Hafrannsóknastofnunar gerir ráð fyrir að þorskkvótinn verði aukinn jafnt og þétt á komandi árum. Fimm ára aflaregla um nýtingu þorskstofnsins hafi borið góðan árangur og líklegt sé að kvótinn fari í 250.000 tonn árið 2016.

Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, vill auka þorskkvótann um 20 þúsund tonn á þessu fiskveiðiári. Fram kom í fréttum RÚV í gær að slíkt gæti skilað 10 til 12 milljörðum í auknar útflutningstekjur. Núverandi aflaregla varðandi þorksveiðar var sett á árið 2009 til fimm ára. Forstjóri Hafrannsóknarstofnunar segir því sé illmögulegt að víkja frá þeirri reglu á miðju fiskveiðiári. Hins vegar sé á þessu stigi eðlilegt að menn horfi til þess árangurs sem náðst hafi af beitingu aflareglunnar síðastliðin fimm ár og þess vegna breyta henni ef menn telja það skynsamlegt. „Ég geri ráð fyrir því að stjórnvöld munu núna á komandi mánuðum efna til einhverskonar vinnu í kring um það,“ segir Jón. 

Núverandi aflaregla rennur út á næsta fiskveiðiári og henni beri að fylgja þar til tímabilið rennur út. „Ef við brjótum á þessri aflareglu eða nýtingarstefnu þá myndi Alþjóðahafrannsóknarráðið álíta sem svo að það væri engin slík áætlun í gangi og það getur haft töluverðar afleiðingar. Meðal annars í markaðssetningu okkar,“ segir hann. 

Þorskstofninn hefur braggast vel á síðustu árum og ljóst er að áætlun stjórnvalda hefur borið árangur. Raunhæft sé að auka kvótann jafn og þétt á næstu árum og jafnvel um 45 þúsund tonn, en hann er núna 215 þúsund tonn. „Það er fullt tilefni til að ætla að aflinn geti verið í kring um 250 þúsund tonn árið 2016,“ segir Jón. 

Til að hægt sé að veiða enn meira en það og eitthvað í líkingu við það sem kvótinn var fyrir nokkrum áratugum, sé nauðsynlegt að fleiri sterkir árgangar af þorskinum komist á legg til að stofninn braggist vel og haldist öflugur.