25.09.2013 14:49
Markús ÍS sökk öðru sinni

Eigandi Markúsar ÍS segir að báturinn hafi sokkið í síðustu viku, en vangaveltur hafa verið um hvað varð um bátinn eftir að hann var dreginn úr höfninni á Flateyri.
Báturinn sökk í Flateyrarhöfn í síðusta mánuði, en var hífður upp. BB á Ísafirði greindi frá því að flytja hafi átt bátinn til Ísafjarðar til niðurrifs, en þangað hafi hann aldrei komið. Ekkert hafi verið tilkynnt til Rannsóknarnefndar samgönguslysa, eins og lög kveða á um.
Markús var í eigu Reddingar ehf. og var Kristbjörg ÍS með bátinn í togi, en GSA ehf. á Kristbjörgu. Bæði félög eru að einhverju leyti í eigu sömu manna.
Kristján Sigurður Kristjánsson hjá Reddingu sagði við fréttastofu fyrir hádegið að Markús hafi sokkið út af Sauðanesi 19. september þegar verið var að draga hann til Ísafjarðar. Hann sagðist ekki hafa gert sér grein fyrir því að sér bæri að tilkynna það til Rannsóknarnefndar samgönguslysa, en búið væri að því núna. Hjá nefndinni fengust þau svör að tilkynning hefði borist í morgun. Þar á bæ hefðu menn fjölmargar spurningar sem óskað yrði svara við.
Kristján Sigurður sagði að vélin hefði verið tekin úr bátnum, mest allt járn og að engin spilliefni hefðu verið um borð. Hann sagði bátinn liggja á 18 til 20 faðma dýpi, sem eru á milli 30 og 40 metrar. Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn á Ísafirði, sagði að málið hefði ekki borist lögreglunni með formlegum hætti.
