20.09.2013 09:37

Safnkostur á siglingu

bb.is:

Sjóhæfir bátar Byggðasafns Vestfjarða sigla á Skutulsfirði.
Sjóhæfir bátar Byggðasafns Vestfjarða sigla á Skutulsfirði.

 

Fimm bátar í eigu Byggðasafns Vestfjarða sigldu saman á Pollinum í gær. Þarna voru á ferðinni Gestur frá Vigur, Hermóður frá Ögurvík, Jóhanna frá Dynjanda, Eljan frá Nesi og Gunnar Sigurðsson frá Ísafirði. Bátarnir eru misgamlir, sá elsti er smíðaður 1906 en hinn yngsti 1974. Verið er að taka bátana á land, en tækifærið var notað til að ná mynd af öllum bátunum saman. „Það stendur til að gefa út bækling um bátakost safnsins, og þetta er liður í þeirri vinnu,“ segir Jón Sigurpálsson, forstöðumaður safnsins. Bæklingurinn verður gefinn út með stuðningi Menningarráðs Vestfjarða, en fimmtán bátar eru í eigu safnsins.

„Markmiðið er að sem allra flestir þeirra verði sjóhæfir,“ segir Jón, en auk þeirra fimm sem sigldu í gær er unnið að viðgerðum á sjötta bátnum, Sædísi frá Ísafirði. „Í framtíðinni siglum við bátunum á hátíðlegum stundum, bæjarbúum til yndisauka.“