20.09.2013 09:49
Komið að lokum hvalvertíðar
Skessuhorn.is, í gær:
Kippur kom í hvalveiðina í vikunni strax og veður lægði eftir þrálátar haustlægðir að undanförnu. Hvalveiðiskipin hafa átt í erfiðleikum með að athafna sig í hafróti að undanförnu og þá verður dagurinn sífellt styttri eftir því sem líður á haustið. Bæði hvalveiðiskipin, Hvalur 8 og Hvalur 9, komu í gær til hafnar í Hvalfirði með tvær langreyðar hvort skip. Þar með voru 128 langreyðar komnar til vinnslu í Hvalstöðinni á þessari vertíð, af 154 dýrum sem leyfilegt er að veiða. Gunnlaugur Fjólar Gunnlaugsson stöðvarstjóri segir að nú hylli undir lok vertíðarinnar og veiðum muni væntanlega ljúka í næstu viku, enda veðrátta og birtuskilyrði farinn að setja strik í reikninginn þegar þessi tími er kominn. Gunnlaugur segir veiðarnar hafa gengið ótrúlega vel miðað við óhagstæða veðráttu í sumar. Hann segir að hvalkjötið fari eins og áður á markað í Japan. Fréttir bárust af því í sumar að gámar með hvalkjöti hafi ekki komist á markað til Japans vegna tregðu flutningafyrirtækja til að flytja það þangað, en engu að síður virðist ekki vera neinn bilbugar á þeim Hvalsmönnum að afsetja afurðirnar. Á vertíðinni hafa starfað yfir 150 manns að meðtöldum skipverjum á hvalbátunum, flestir í Hvalfriði en einnig á Akranesi og Hafnarfirði.

