14.09.2013 22:20
Á síðustu dropunum - Ferð Víkings KE 10 frá Skagaströnd til Keflavíkur
Í gær lögðu tveir menn af stað frá Skagaströnd með Víking KE 10 og var förinni heitið til Keflavíkur, með viðkomu á Rifi til að taka olíu.
Annar þessara manna hafði verið í ferðalagi á Hofsósi er ósk kom um að hann sigldi bátnum með hinum þessa leið og var sá fyrrnefndi skipstjórinn í ferðinni.
Gekk 1. áfanginn að Rifi nokkuð vel þrátt fyrir að bræla hafi verið er þeir sigldu fram hjá Vestfjarðarkjálkanum. Komu þeir í nótt á Rif og ætluðu að taka þar olíu, en þá kom babb í bátinn, þar sem þeir voru með kubb en ekki olíukort og gátu því ekki fengið olíu, því þarna gilti aðeins kort. Tók skipstjórinn því þá áhættu að sigla til Keflavíkur, þrátt fyrir litla olíu, enda var hagstætt veður á leiðinni og þeir vissu að á miðjum Faxaflóa væri stærri bátur frá útgerðinni að veiðum. Var því siglt á hægari ferð, en annars hefði verið gert. Er þeir voru farnir að nálgast Garðskaga sögðu þeir í símtali við land að þeir væru nánast farnir að sigla á gufunni.
Hvað sem því líður þá tókst þeim að komast í Grófina í Keflavík og stóð ég við hlið bátsins, þar sem rétt var búið var að binda hann, er vélin drap á sér sökum olíuleysis. Þannig að þarna skall hurð nærri hælum, en allt tókst þó vel.
Hér eru myndir af bátnum í morgun þegar hann var kominn inn á Keflavíkina, á leið sinni í Grófina.
![]()


2426. Víkingur KE 10, siglir inn Keflavíkina með stefnu á Grófina, í morgun





Hér hefur hann beygt að innsiglingunni í Grófina

Hér er hann nánast kominn að Grófinni og Hólmsbergið í baksýn

Hér er 2426. Víkingur KE 10, að koma inn í Grófina, í Keflavík í morgun © myndir Emil Páll, 14. sept. 2013
AF FACEBOOK:
Þorgrímur Ómar Tavsen Ef veðrið hefði nú verið svona gott alla leið, þá væri maður ekki með strengi í dag.
