10.09.2013 18:22
Rússneskur togari rifinn í Hafnarfirði
mbl.is:
Unnið er að því að rífa gamlan rússneskan togara í brotajárn sem hefur verið aðgerðarlaus í Hafnarfjarðarhöfn í nokkur ár. Hafnarstjórinn Már Sveinbjörnsson segir í samtali við mbl.is að togarinn hafi verið dreginn upp í fyllingu sl. föstudag við Suðurgarð þar sem niðurbrotið fer fram. Vandi getur skapast séu skip látin liggja án afskipta.
Aðspurður segir Már að togarinn, sem sé um það bil 1.700 brúttótonn að stærð, hafi legið verkefnalaus í höfninni undanfarin fimm eða sex ár. "Hann hefur bara legið og eigendurnir hafa borgað af honum; svo sáu þeir tækifæri til að selja hann."
Gott fyrir höfnina að skipið sé rifið í brotajárn
Málmendurvinnslan Fura keypti togarann af rússneskri útgerð fyrir skemmstu í þeim tilgangi að rífa skipið í brotajárn. Már segir að járnið verði flutt út.
"Þetta er mjög gott fyrir okkur líka að þetta skuli gerast, vegna að við höfum áhyggjur af því ef skip liggja of lengi. Þau geta jafnvel sokkið," segir Már og bætir við að skip tærist í höfninni. Það væri stórt vandamál ef togari myndi sökkva í höfninni.
Már tekur aftur á móti fram að menn hafi ekki haft áhyggjur af slíku hvað varðar rússneska skipið.
Um þúsund tonn af stáli
"Þetta er fjórða skipið sem Fura rífur þarna. Þeir eru búnir að rífa einn togara áður og tvo báta," segir Már og bætir við að þetta hafi gengið mjög vel og allur umgangur hafi verið góður.
"Þeir byrja á því að rífa ofan af og eftir því sem hann léttist þá kemur sjórinn og lyftir honum hærra upp, og þá hlaða þeir undir hann grjóti. Þannig er hann eiginlega kominn á þurrt í restina. Þeir nota sjávarföllin til að lyfta honum upp," segir Már, en svona aðgerð getur tekið margar vikur, en úr þessu getur komið 800 - 1.000 tonn af stáli.
Einkennilegt lagaumhverfi
Már bendir á, að það sé töluvert um það að skip liggi aðgerðarlaus árum saman í höfnum landsins. "Menn hafa samt verið dálítið duglegir við að draga þetta til útlanda í brotajárn. Það hefur eitthvað verið um að menn hafa verið að rífa þetta með þessum hætti hér á landi."
Þá segir Már aðspurður að reglur varðandi skip og hafnir landsins séu ólíkar þeim sem gilda t.d. varðandi bifreiðar eða húsnæði. "Ef þú átt hús eða bíl, sem er lögskráð, þá ert þú ábyrgur fyrir því. En ef þú átt bátt þá getur þú lagt honum í höfn og labbað frá honum og þú ert ekki ábyrgur fyrir honum. Það er svo einkennilegt lagaumhverfi í kringum þetta," segir hann
Þetta eru íslenskar reglur og bætir Már við að hafnarstjórar hafi ítrekað bent löggjafanum á þetta en viðbrögðin hafa látið á sér standa.
Hann tekur hins vegar fram að flestar útgerðir greiði sín gjöld af skipum sem eru staðsett í höfnum landsins. Dæmi um hið gagnstæða séu hins vegar til staðar og úrræði af skornum skammti.
