30.08.2013 22:05

Ísborgin heldur til úthafsrækjuveiða

bb.is:

          78. Ísborg ÍS 250, á Ísafirði © mynd bb.is, fyrir mörgum árum

Nýtt fiskveiðiár hefst á sunnudag og verða veiðar á úthafsrækju frjálsar þar til veiðarnar verða takmarkaðar og aflaheimildum úthlutað. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, hyggst mæla fyrir lagafrumvarpi á haustþingi þar sem 30% aflaheimilda í úthafsrækju verður úthlutað samkvæmt veiðireynslu undanfarinna þriggja ára og fer 70% til þeirra sem höfðu aflaheimildirnar áður en Jón Bjarnason leyfði frjálsar úthafsrækjuveiðar vegna þess að þáverandi kvótahafar veiddu lítið sem ekkert af úthafsrækju.

Rækjutogarinn Ísborg ÍS hefur legið við bryggju á Ísafirði síðan rækjuveiðar voru bannaðar 1. júlí. Arnar Kristjánsson, eigandi og skipstjóri Ísborgar, heldur til veiða á nýju fiskveiðiári. "Ég fer ekkert fyrr en eftir helgi, ég er að taka upp vélina í skipinu og þá eigum við eftir að taka veiðarfærin um borð. Ég verð ekki klár fyrr en eftir helgina en það er alltaf gott að fá að gera eitthvað," segir Arnar.

Veiðin á þessum árstíma hefur oft verið ágæt, að sögn Arnars, en það er farið að hausta og þá er veiðin stopulli. "Ef það er veður og sæmileg tíð nuddast eitthvað. Ég hef yfirleitt ekki verið nema fram í október og þá er orðið leiðinlegt að eiga við þetta og þá hætti ég. Þá er olían stærsti liðurinn í útgerðinni, þá skilar þetta ekki neinu."

Aðspurður hvort hann sjái fram á að halda áfram veiðum eftir áramót verði frumvarp sjávarútvegsráðherra orðið að lögum segir hann: "Ég hef ekki trú á því, ég held það eigi eftir að þvælast fyrir mönnum að koma þessu í gegn. En maður á aldrei að segja aldrei, kannski þetta sé eitthvert forgangsmál hjá þeim. Ég hélt ekki, ég held að þingið hefði annað á prjónum en að eltast við svona smotterí. Þetta verður tekið fyrir en mér finnst afar ólíklegt að þetta verð keyrt í gegn á einhverjum hraða, það eru mörg önnur mál sem eru brýnni en þetta."