12.08.2013 17:54
Minna af makríl en í fyrra
Fyrstu niðurstöður úr leiðangri hafrannsóknarskipsins Árna Friðrikssonar sem lauk fyrir helgi eru þær að magn makríls var mikið á íslenska hafsvæðinu en þó minna en mældist metárið 2012. Þá mældust tæp 1,5 milljónir tonna innan íslenskrar lögsögu.
Úrvinnsla úr gögnum leiðangursins er ekki lokið en helstu niðurstöður þessara rannsókna munu birtast í sameiginlegri skýrslu þeirra aðila sem að leiðangrinum stóðu að loknum fundi eftir miðjan ágúst. Teknar voru 102 togstöðvar, 96 sjórannsóknastöðvar og 93 átustöðvar í leiðangrinum.
Nokkuð varð vart við þriggja ára makríl frá Suðausturlandi til Vesturlands sem gæti verið vísbending um að árgangurinn frá 2010 sé stór, en þessi árgangur var einnig áberandi í rannsóknum Norðmanna og Færeyinga vestan við Noreg og í Noregshafi.
