12.08.2013 16:44

Fimmtíu ár frá fyrstu vertíðinni

                            Áhöfnin á Guðrúnu Jónsdóttur ÍS. Vignir er fyrir miðju.

bb.is

"Það voru 50 ár síðan Guðrún Jónsdóttir ÍS fór á fyrstu vertíðina frá Ísafirði en það var í janúar 1963. Áhöfnin sem var á fyrstu vertíðinni hittist á föstudag, við fengum þá kaffi og tertu og höfðum það huggulegt. Það var gaman að spjalla saman eftir allan þennan tíma. Þetta gekk yfirleitt ágætlega, við vorum á línu og netum og síðan var farið á síld yfir sumarið. Ég hætti árið 1966, þá náði ég í annan bát sem heitir Júlíus Geirmundsson," segir Vignir Jónsson, skipstjóri á Ísafirði sem var með bátinn þessa fyrstu vertíð.

Hann segir ánægjulegt hversu vel var mætt. Nokkrir úr áhöfninni eru látnir en þeir voru tólf skipsfélagar saman komnir í Neistahúsinu á Ísafirði á föstudag. Guðrún Jónsdóttir ÍS 267 kom á jóladag 1962 til heimahafnar á Ísafirði frá Flekkefjörd í Noregi þar sem hún var smíðuð. Hún var seld til Grindavíkur árið 1971 þar sem hún var gerð út í fjölda ára. Bátnum var mikið breytt í gegnum tíðina og hét lengst af Hafberg GK 377. Í dag er báturinn gerður út frá Húsavík og heitir Hera ÞH-60.


           67. Guðrún Jónsdóttir ÍS 267, samkoma áhafnar eftir 50 ár © myndir og texti: bb.is