09.08.2013 17:56
Tólf manns bjargað af skútu í nótt
Tólf manns var bjargað um borð í björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar af þýskri seglskútu sem sökk út af Garðskaga í nótt.
Landhelgisgæslan kallaði út Björgunarsveitina Suðurnes, Björgunarsveitina Ægi, Björgunarsveitina Sigurvon og Björgunarsveit Hafnarfjarðar skömmu fyrir miðnætti þegar neyðarkall barst skútunni. Leki hafði komið að henni um 17 sjómílur vestnorðvestur af Garðskaga, en um borð voru fjórir í áhöfn og átta farþegar.
Auk björgunarsveita voru nærstödd skip og þyrla landhelgisgæslunnar send á vettvang, en togarinn Hrafn Sveinbjarnarson kom að skútunni um miðnætti.
Gunnjón frá Garði kom fyrstur björgunarbáta að skútunni og fljótlega kom Njörður Garðarsson frá Reykjanesbæ, en Fiskakletti frá Hafnarfirði var snúið við til að sækja dælur um borð í Björgunarskipið Einar Sigurjónsson, einnig frá Hafnarfirði. Þungur sjór gerði björgunarmönnum erfitt fyrir, en laust eftir kl. 2 í nótt kom Fiskaklettur að skútunni og setti dælu um borð og björgunarmann sem hóf dælingu. Síðar kom Þorsteinn frá Sandgerði með dælu og annan björgunarmann, en illa gekk að dæla vegna hluta sem voru fljótandi í sjónum við sogbarkana.
Skömmu fyrir kl. 4 flutti Þorsteinn bátsverja yfir í Einar Sigurjónsson þar sem hlúð var að þeim, en þeir voru orðnir nokkuð kaldir. Einar Sigurjónsson tók skútuna í tog til Sandgerðis og fylgdu Gunnjón og Þorsteinn þeim þangað, en Njörður og Fiskaklettur fóru til hafnar til að undirbúa áhafnaskipti. Áður en komið var til Sandgerðis var taugin skorin skorin í sundur þar sem skútan var að sökkva.
Við komuna til Sandgerðis var búið að kalla eftir súpu og brauði frá Vitanum í Sandgerði sem bátsverjar þáðu með þökkum, enda orðnir kaldir og hraktir. Læknir frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja kom og skoðaði bátsverja og þá færði fulltrúi frá Hjálpræðishernum þeim þurr föt.

Falado Rhodos, í Keflavíkurhöfn © mynd Emil Páll, 3. ágúst 2013
