04.08.2013 17:42

Aðalbjörg aftur á flot

ruv.is:

 

Fornminjasjóður hefur úthlutað einni milljón króna til að gera hinn sögufræga bát Aðalbjörgu RE-5 upp. Forsvarsmaður verkefnisins vonast til þess að báturinn komist á flot aftur og fái nýtt hlutverk.

Í Árbæjarsafni stendur báturinn Aðalbjörg RE-5. Saga hennar er löng og skipar stóran sess í sögu Reykjavíkur. Aðalbjörg er þrjátíu tonna eikarbátur sem smíðaður var í Reykjavík á fjórða áratugnum. Þá var atvinnuástand í bænum slæmt og höfðu menn áhyggjur af því að þekking á skipa- og bátasmíðum væri að glatast. Aðalbjörg var gerð út sem vertíðarbátur til árins 1986, og fór þá á safnið þar sem hún hefur staðið síðan. Nú hefur Fornminjasjóður úthlutað einni milljón króna til að gera hana upp.

Guðbrandur Benediktsson, sagnfræðingur og forsvarsmaður verkefnisins, segir að styrkurinn sé viðurkenning þar sem bátavernd fái í fyrsta sinn úthlutun úr sjóðnum. Markmið sé að viðhalda þekkingu, rétt eins og þegar Aðalbjörg var smíðuð, en mikilvægast sé þó að koma henni á flot. „Og í stuttu máli má segja að varðveisla upp á landi er ekki æskileg fyrir eikarbáta, þannig að þarf að bregðast núna fljótt við og ganga í verkið að og gera bátinn upp. Og ákjósanlegast væri í raun að koma honum aftur á sjó, það eru kjör aðstæður fyrir báta, að komast á sjó og vera í einhverri virkni,“ segir Guðbrandur. 

Hann vonast til þess að Aðalbjörg verði sett á sjó og fái nýtt hlutverk. „Jafnvel í siglingum um sundin, út í Viðey, og svæðinu við gömlu höfnina. Maður veit svo sem ekki hver framtíðin verður, en óneitanlega fannst mér áhugavert að sjá hvernig Húnamenn, Húni II, hvernig menn hafa haldið honum við og fengið honum þetta skemmtilega hlutverk þar sem hann siglir um landið með tónlistarmenn og kemur við í höfnum víða um land. Þannig að maður veltir fyrir sér hvort Aðalbjörgin geti fengið eitthvað slíkt hlutverk. Skemmtibátur yfir sundin, eða jafnvel hvalaskoðun.“