30.07.2013 16:17

Reynt að ná Magnúsi SH, logandi út


           1343. Magnús SH 205 © mynd Snorrason

 

mbl.is.:

Yfir þrjátíu slökkviliðsmenn glíma við eld í báti inni í skipasmíðastöðinni á Akranesi. Nú er unnið að því að færa bátinn út úr húsinu því erfitt er fyrir slökkvilið að athafna sig inni með allan sinn tækjabúnað. Enn logar í bátnum. Eldurinn kviknaði eftir hádegi. Reyndu starfsmenn skipasmíðastöðvarinnar Þorgeirs & Ellerts að slökkva eldinn en kölluðu einnig til slökkvilið. Talið er hugsanlegt að kviknað hafi í út frá logsuðutæki. Um er að ræða bátinn Magnús SH-205 sem er 230 tonna bátur, gerður út frá Hellissandi.

Þráinn Ólafsson, slökkviliðsstjóri hjá Slökkviliði Akraness og Hvalfjarðarsveitar, segir sprengihættu á svæðinu þar sem gaskútar eru í bátnum sem eldurinn logar í. Hann segir að haldið sé kælingu á kútunum. Enn er mikill reykur í húsinu en ekki er talið að eldurinn hafi læst sig í húsið sjálft. Þráinn telur að um 1-2 klukkutíma geti tekið að koma skipinu út úr húsinu og ráða niðurlögum eldsins að fullu. „Það er hörkumikil vinna framundan,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Um 20 manns frá slökkviliði Akraness og Hvalfjarðarsveita eru á svæðinu sem og átta frá Reykjavík og 7-8 frá Borgarnesi. Þá er von á sex til viðbótar frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Reykkafarar þaðan voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Akraness fyrr í dag.