12.07.2013 23:00

Óríon BA 34: Endurbætur á fullu hjá Sólplasti

Endurbætur á Óríon BA 34 sem skemmdist er eldsvoði varð skömmu eftir hvítasunnu hjá Bláfelli á Ásbrú, eru nú unnar á fullu hjá Sólplasti ehf. í Sandgerði. Þrífa þurfti allan bátinn og eins og margir vita þá virðist sótið allsstaðar smjúga og koma fram aftur og aftur. Var því í dag enn verið að þrífa sót í vélarrúminu en menn vonast til að komið sé fyrir það að meira sót finnist.
Búið er að fara í gegn um vélina og eru menn vongóðir þar líka. Þá er búið að mála lestina í bátnum, sem þörf var á eftir brunann. Eftir helgi verður hafist handa varðandi rafmagnið.
Það sem sviðnaði í brunanum er komið í viðgerð og var verið að vinna við að steypa í dag nýja plasthúð á þann hluta.
 Ljóst er því að mikið verður búið eftir um viku, en þá á eftir að taka ákvörðun með það að klára bátinn, en það var heilmikið eftir, þegar eldsvoðinn varð. Raunar á eftir að gera allt í stýrishúsinu og margt fleira svo báturinn komist í gagnið.
Hér koma myndir sem ég tók í dag bæði þar sem verið var að gera við það sem brann og eins eru myndir úr bátnum sjálfum.


                                   7762. Óríon BA 34, innandyra hjá Sólplasti


                                                       Búið er að mála lestina, að nýju


                     Bragi Snær, hefur annast þrifin og hér er hann að ljúka við í vélarrúminu


                                Svona leit þetta út þegar búið var að fjarlægja það sem brann






              Kristján Nielsen, gerir plastmotturnar klárar áður en byrjað er að steypa plastið










                      Ekki er Kristján að mála eins og halda mætti, heldur fer steypingin þannig fram að fljótandi plasti er rúllað yfir motturnar og þannig myndast ný plasthúð. Er þetta gert koll af kolli þar til þetta er komið í þá þykkt sem það á að vera í.











                   Áfram heldur þetta, en þar sem ég ætla ekki að segja frá því í smáatriðum hvernig þetta fer fram stoppa ég hér. Eitt er víst að það eru ýmsar kúnstir aðrar sem fara fram áður en þetta er komið í það form sem það á að vera í, áður en málað verður og því á mikið eftir að gera enn áður en af því verður.
Mun ég þó fylgjast með endurbótum þessum, svona bæði fyrir mig og eins til að sýna meiri fróðleik  © myndir Emil Páll, í dag, 12. júlí 2013