09.07.2013 22:40
Jónatan Stefánsson: Mikill safnari, á módel og myndir af frægum skipum - og saga Gullskipsins
Í Sandgerði býr Garðmaðurinn Jónatan Stefánsson, sem í gegn um árin eða allt frá árinu 1978 hefur viðað að sér mörgum módelum af frægum skipum, myndum og mörgu öðru er tengist sjósókn. Til að skoða safn hans heimsótti ég hann í dag undir leiðsögn Baldurs Konráðssonar.
Jónatan hóf söfnun sína með því að kaupa líkan af áttæringi af Hinrik í Merkinesi og síðan hefur hann eignast 30 módel í viðbót, m.a. módel af Títanik, Gullskipinu sem í raun hét Het Waper Van Amsterdam ( og ég birti sér frásögn hér fyrir neðan myndirnar), vélbátnum Garðari BA 64, en á honum var hann í mörg ár og getur sagt margar skemmilegar sögur um það úthald og margt annað sem vonlaust er að telja upp. Þá eru myndir af ýmsum íslenskum bátum um mundir er tengjast sjósókn.
Þar sem ég birti ekki nema örfáar myndir frá safni Jónatans, vísa ég á síðu Gissurar Þórs Grétarssonar, njall.123.is, en þar birtist ítarleg myndataka úr safninu. Fregnir af söfnunaráráttu Jónatans hefur borist víða, enda er mjög gestkvæmt hjá honum af fólki sem kemur til að skoða. Meðal þeirra eru líka fólk sem vill fá að kaupa muni af honum en þeir eru ekki falir. Sem dæmi þar um þá vildu færeyingar kaupa allt safnið stykki fyrir stykki og setja í gám og flytja út til Færeyja. Þá hafa sveitarstjórnarmenn í Skaftafellssýslu óskað eftir að fá að kaupa módeli að gullskipinu, en það er heldur ekki til sölu.


Efra módelið, er það fyrsta sem Jónatan fékk í safnið, áttæringur frá Hinriki á Merkinesi ( fyrir þá sem ekki þekkja þann mann, þá hét hann í raun Vilhjálmur Hinrik og var pabbi þeirra systkina Ellýar og Vilhjálms Vilhjálmssonar söngvara. Neðra módelið er af Titanic

Þarna sjáum við m.a. Het Wapen van Amsterdam (gullskipið) og 60. Garðar BA 64

Het Wapen van Amsterdam (gullskipið)

Hér kennir margra grasa, eins og oft er sagt

60. Garðar BA 64

Jónatan Stefánsson, við Het Wapen van Amsterdam (gullskipið)
© myndir Emil Páll, í dag, 9. júlí 2013
Saga gullskipsins:
Het Wapen van Amsterdam (stundum nefnt gullskipið) var hollenskt skip sem sigldi frá Austur-Indíum árið 1667. Það strandaði á Skeiðarársandi 19. september 1667. Skipið var hlaðið dýrmætum varningi og með 200 manns innanborðs. Af þeim björguðust 60 eftir mikla hrakninga en hinir 140 létust úr sjóvolki og kulda. Margar tilraunir hafa verið gerðar til að finna skipið í sandinum en þær hafa ekki borið árangur. Ýmsir töldu að skipið hefði borið verðmætan farm frá Austur-Indíum sem hefði grafist með flakinu í sandinn en á móti hafa menn bent á heimildir sem gefa til kynna að skipið hafi verið rifið og viðir þess nýttir í áratugi eftir strandið.
Leitin að gullskipinu
Saga skipulegrar leitar að skipsflakinu í sandinum hófst á því að Bergur Lárusson frá Kirkjubæjarklaustri fékk árið 1960 leyfi frá forsætisráðherra til að leita að skipinu gegn hlut í því sem fyndist. Leitin hófst samt ekki fyrr en árið 1971 þegar hópur athafnamanna með Kristinn Guðbrandsson, kenndan við fyrirtækið Björgun, innanborðs kom að málinu í samstarfi við Berg. 1974 kom ábending frá starfsmönnum Varnarliðsins um skipsflak á ákveðnum stað í sandinum. Uppgröftur leiddi ekkert í ljós en 1981 sýndu mælingar annað flak á öðrum stað en talið var að skipið hefði strandað. Mikill uppgröftur var hafinn þar með 50 milljón króna ríkisábyrgð árið 1983 en þegar til kom reyndist það vera flak af þýska togaranum Friedrich Albert frá Getsemünde sem strandaði 19. janúar 1903.
