08.07.2013 22:15
Moby Dick, Guðmundur Falk og augnaveisla fyrir hvalaskoðunarfarþega í dag
Í dag hafði ég hugsað mér gott til glóðar, varðandi myndatökur af hvalaskoðunarbátnum Moby Dick og vonaðist jafnvel til að sjá eitthvað af þeim sjávardýrum sem þeir þar um borð voru að leita að. Vissi ég að báturinn yrði úti í Garðsjó og utan við Garðskaga og um borð væri kominn skipstjóri sem ég kannaðist við.
Þessi áform urðu þó fljótt að engu þegar þoka skall stögglega á, en engu að síðu héldu þau áfram út fyrir Garðaskaga og farþegarnir fengu svo sannarleg augnakonfekt, þ.e. fjöldi dýra á sundi og jafnvel að stökkva.
Var ég búinn að afskrifa að ná myndum af bátnum, þegar það óvænta gerðist, er báturinn kom skyndilega út úr þokunni við Hólmsbergið á bakaleiðinni og miðað við siglingalagið var augljóst að skipstjórinn þekkti vel til, því sjaldgæft er að sjá svona stórt skip sigla svona nálægt landi eins og hann gerði . Náði ég myndasyrpu þeirri sem ég sýni nú, ýmist á Keflavíkinni sjálfri eða er þeir voru að koma til Keflavíkurhafnar.
En hver skyldi skipstjórinn vera, jú það er Guðmundur Falk, sem er sjómaður með mikla reynslu sem slíkur og mikill ljósmyndari sem m.a. hefur sent mér myndir til birtingar hér á síðunni.
Umræddur bátur Moby Dick ber aldurinn vel, þó svo að hann nái í haust þeim áfanga að verða fimmtugur. Hann var smíðaður fyrir íslendinga í Florö, í Noregi árið 1963 og skráður í nóvember það ár. Um er að ræða 90 farþega skip, sem í upphafi hét Fagranes og var gert út frá Ísafirði, síðan fékk það nafnið Fjörunes, en var fljótlega keypt til Húsavíkur þar sem það fékk nafnið Moby Dick og hélt því nafni eftir að hafa verið keypt til Njarðvíkur fyrir þó nokkrum árum. Í dag er skipið í eigu Skipasmíðastöðvar Njarðvikur, sem eignaðist það eftir að það hafði verið selt til Grænhöfðaeyja þar sem það átti að bera nafnið Tony, en dagaði uppi í slippnum í Njarðvik. Nýtt fyrirtæki Hvalaskoðun Keflavíkur gerir skipið út í dag, eins og ég hef áður sagt frá og er Helga Ingimundardóttir, framkvæmdastjóri, en þau eru með söluaðstöðu í gamla Skipaafgreiðsluhúsinu á Hafnargarðinum í Keflavík.
Hér kemur myndasyrpa sem ég tók í dag, eins og fyrr segir og á síðustu myndinni sjáum við skipstjórann Guðmund Falk, við skipshlið í Keflavíkurhöfn


46. Moby Dick, siglir nærri strandlengjunni í Keflavík í dag

Hér siglir skipið út úr Keflavíkinni og nálgast Vatnsnesið. Í baksýn má sjá vinstra meginn þann hluta Hólmsbergsins sem Brenninípa og Hellumið eru, en í þokunni grillir í Hólmsbergið ofan við Helguvík, sjóvarnargarðinn þar fyrir utan og klettinn Stakk

Hér grillir aðeins í þokunni í sjóvarnargarðinn og Stakk framan við Helguvíkina




Það er ekki að sjá að hér sé á ferðinni fimmtugt skip, því það ber aldurinn vel, en hér er það að sigla fram hjá Vatnsnesinu í Keflavík



Ánægðir farþegar fylgjast með siglingunni og hér er siglt inn Vatnsnesvíkina að Keflavíkurhöfn

Skipstjórinn Guðmundur Falk við skipshlið, eftir að komið var að bryggju í Keflavíkurhöfn © myndir Emil Páll, í dag, 8. júlí 2013
