08.06.2013 17:00
Glerglas í rekaviðadrumbi
Hvað skyldi þetta efni eiga við um skipasíðu? Jú, í þessu tilefni á það við, því bak við þessa mynd sem nú kemur er svolítil saga. Síðustu árin áður en síldin hvarf hér á sjöunda áratug síðustu aldar, voru veiðisvæðin mikið út við Jan Mayen á sumrin og á Rauða torginu á haustin. Man ég að það tók okkur 36 tíma að sigla frá Jan Mayen til Raufarhafnar með drekkhlaðinn bátinn, en ég var þarna með bróður Geirs Garðarssonar, Guðmundi eða Bóba eins og hann var almennt kallaður og vorum við á Sigurpáli GK. Geir var aftur á móti á öðrum báti.
Ef bræla var við Jan Mayen var oft farið þar í land á léttabátunum, en fjaran var ýmist sandfjara eða fjara sem var yfirfull af rekaviðardrumbum og einmitt er mynd sú sem nú birtist tekin af skipsfélaga Geirs Garðarssonar þar sem hann var búinn að taka rekaviðadrumb í sundur og kom þá í ljós að í viðnum var glerglas með miða í. Á myndinni sem Geir tók við þetta tækifæri sést einmitt farið eftir glasið, en búið er að taka glasið út.

Skipfélagi Geirs, með rekaviðardrumbinn, umtalaða og farið eftir glasið sést þarna greinilega © mynd Geir Garðarsson
