23.05.2013 05:21

Íkveikja hjá Bláfelli á Ásbrú. Oríon BA 34 stórskemmdur

Töluvert tjón varð í bátasmiðjunni Bláfelli á Ásbrú, er eldur kom upp í húsinu i fyrrakvöld, sem rannsakað er sem íkveikja. Ljóst er að mesta tjónið varð á Óríon BA 34, sem var nánast tilbúinn, en hann er sviðinn að aftan, og sótugur, en aðal tjónið mun þó vera að  völdum sjálfvirka slökkvikerfisins sem úðaði vatni yfir allt og hálffyllti bátinn. Við það var vélin, tæki og rafmagnið umflotið vatni. Á þessu stigi er því ekki ljóst hvað verður um bátinn, en tryggingarmenn skoða bátinn núna í morgunsárið og í framhaldi af því kemur í ljós hvað gert verður.

Birti hér frásögn Víkurfrétta af málinu frá því í gær.


Fréttir | 22. maí 2013 14:17

Eldur í bátasmiðju á Ásbrú

Eldur kom upp í bátasmiðju á verktakasvæðinu á Ásbrú seint í gærkvöldi. Sjálfvirkt slökkvikerfi er í húsnæðinu og hafði það slökkt nær allan eld þegar slökkvilið Brunavarna Suðurnesja kom á vettvang.

Nú er unnið að rannsókn á upptökum eldsins í húsinu. Þegar komið var að húsinu seint í gærkvöldi vaknaði strax grunur um að brotist hafi verið inn í húsnæðið því útihurð hafði verið spennt upp. Því er m.a. rannsakað hvort eldur hafi verið borinn að byggingunni.

Ekki er ljóst hversu mikið tjónið er en þó er ljóst að sjálfvirka slökkvikerfið kom í veg fyrir að stórbruni yrði í gærkvöldi.

VF-myndir: Hilmar Bragi