21.05.2013 21:45

Sæbjörg SH 23 - hefur legið í Njarðvíkurhöfn í nokkur ár


                    586. Sæbjörg SH 23, í Drafnarslipp í Hafnarfirði © mynd Emil Páll

Smíðaður hjá Evers-Werft, Niendorf Ostsee, Þýskalandi, 1959 eftir teikningu Egils Þorfinnssonar. Kom til heimahafnar á Ísafirði í fyrsta sinn á jólunum 1959. Nýtt stýrishús sett á hann í Daníelsslipp á síðari hluta áttunda áratugs síðustu aldar. Afskráður sem fiskiskip 2006.

Báturinn var í upphafi smíðaður fyrir Guðfinn sf. Keflavík og átti að heita Árni Geir KE 31. En vegna greiðsluvandkvæða hjá Hrönn hf., fékk Guðfinnur bát Hrannar hf., en hann var tilbúinn fyrr. Hrönn hf. fékk því þennan bát en bátarnir voru systurskip og eru báðir enn til.

Báturinn lá við bryggju í Kópavogshöfn í nokkurn tíma, en sökk þar við bryggju 19. mars 2003, en þá var verið að bíða eftir að geta fargað honum. Var honum náð upp og varð nokkuð bið, meðan tekin var ákvörðun með framhaldið og hann því fluttur út á legu í Kópavogi. Þar slitnaði hann upp 30. nóv. 2006 og rak á land undir Gálgahrauni í Garðabæ. Náð þaðan út 2. des. 2006. Fljótlega upp úr því var hann dreginn til Njarðvíkur og tekinn upp í Njarðvíkurslipp þar sem til stóð að endurbyggja hann og breyta í hvalaskoðunarskip í nóv. 2007. Þar sem sú framkvæmd dróst á langinn var ákveðið að setja hann niður í júlí 2008, þar sem mönnum fannst hann þorna of mikið uppi á landi. Sökk hann síðan í Njarðvíkurhöfn en var náð upp og hefur síðan verið undir eftirliti og  hafa hafnarstarfsmenn  o.fl. ítrekað bjargað honum frá því að sökkva í höfninni, bæði áður en hann sökk og eins nú eftir að honum var náð á flot að nýju.

Nöfn: Guðbjörg ÍS 14, Hrönn ÍS 46, Sæbjörg SH 23, Farsæll SH 30, Langanes ÞH 321, Björg Jónsdóttir ÞH 321, Fagranes ÞH 123, Aron ÞH 105, Reistarnúpur ÞH 273 og núverandi nafn Stormur SH 333.