16.05.2013 13:15
Sigla af stað í ævintýraferðina
Fjórir Íslendingar leggja af stað frá Kristiansand í Noregi á morgun á úthafsróðrarbátnum Auði. Ef þeim tekst ætlunarverk sitt, að verða fyrstir allra að róa frá Noregi til Íslands, með viðkomu á Orkneyjum og Færeyjum komast þeir í heimsmetabók Guinness.
"Margir kalla úthafsróður hina nýju Everestáskorun og þó svo nokkrir hafi reynt hefur engum enn tekist að róa þessa leið," segir Eyþór Eðvarðsson í fréttatilkynningu en ásamt honum taka þátt í Norður-Atlantshafsróðrinum (N.A.R.) þeir Einar Örn Sigurdórsson, Kjartan Jakob Hauksson og Svanur Wilcox. Þeir áætla að vera 2-3 mánuði á leiðinni en undirbúningur hefur staðið á annað ár og njóta þeir fjárstuðnings fjölmargra fyrirtækja.
Allt er nú að verða klárt fyrir brottför á morgun, 17. maí, á þjóðhátíðardegi Norðmanna. Allur kostur fer um borð í dag og ferðahugur kominn í þá félaga. "Við erum fullir bjartsýni um að þetta takist og trúum bara á mátt okkar og megin," segir Eyþór ennfremur í fréttatilkynningu en hægt er að fylgjast með ferðalagi þeirra hér.
Bátur fjórmenninganna
