23.04.2013 09:01
Sigla afmælishring um Ísland
Fréttablaðið /visir.is:
Eikarbátnum Húna II verður í maí siglt umhverfis landið til að minnast þess að hálf öld er síðan báturinn var smíðaður á Akureyri.
Aðstandendur Húna hafa leitað til bæjaryfirvalda á áætluðum fjórtán viðkomustöðum og falast eftir styrkjum til siglingarinnar, meðal annars með því að fá felld niður hafnargjöld. „Báturinn gegnir mikilvægu hlutverki í tengslum við sögu bátasmíða og fiskveiða en einnig í tengslum við strandmenningu, ferðamennsku og nú síðast fræðslu ungmenna um sjávarnytjar,“ segja Hollvinir Húna II í bréfi til sveitarfélaganna.
Lagt verður upp frá Akureyri 11. maí og siglt austur og suður fyrir land áður en Húni kemur aftur til heimahafnar 23. maí. Á Húsavík slæst Knörrinn, sem var smíðaður í skipasmíðastöð KEA árið 1963 eins og Húni, með í förina. Almenningi verður boðið að skoða bátana.
Húni II var gerður út til fiskveiða í 30 ár áður en hann var tekinn af skipaskrá 1994. Var þá ætlunin að koma bátnum fyrir kattarnef á áramótabrennu en hann var þó settur aftur á skipaskrá 1995 og gerður út sem hvalaskoðunarbátur í nokkur ár frá Skagaströnd og Hafnarfirði.
Húni II er gerður út frá Akureyri. Báturinn er notaður undir samkvæmi og til skemmtisiglinga.
