06.04.2013 17:10
Stærsta sólarrafhlöðuskip heims á leið til Ísland
Siglir með golfstraumnum
Skipið Tûranor PlanetSolar hefur þegar siglt í kringum heiminn en það var sjósett í mars árið 2010. PlanetSolar.org
Stærsta sólarrafhlöðuskip heims – Tûranor PlanetSolar – er á leið til Reykjavíkur. Skipið er með 537 fermetra stóran sólskjöld og alls komast fjörutíu farþegar um borð í skipið. Það mun sigla með golfstraumnum í sumar, í maí og fram í ágúst. Skipið mun sigla frá Miami í Bandaríkjunum til New York og Boston, þaðan af til Reykjavíkur og svo áleiðis til Bergen í Noregi.
Skipstjórinn er Gérard d’Aboville en hann hafði þetta að segja um leiðangurinn í fréttatilkynningu um málið: „Það er mjög heillandi að vera skipstjóri stærsta sólarrafhlöðuskips í heimi!“ Tilgangur leiðangursins er að leita svara við loftlagsbreytingavandanum, en um borð í skipinu verður loftlagsfræðingurinn Martin Beniston, prófessor við Genfarháskóla.
