06.04.2013 20:15
Áhöfnin kveikti mannskæða elda
mbl.is:

Áhöfn ferjunnar Scandinavian Star kveikti eldinn um borð er varð til þess að 159 manns fórust í apríl árið 1990. Áhöfnin skemmdi einnig fyrir björgunarmönnum að störfum.
Þetta er helsta niðurstaða nýrrar skýrslu um ferjuslysið. Í rannsóknarnefndinni sem samdi skýrsluna er bæði Norðmenn og Svíar, m.a. slökkviliðsmenn sem komu að björgunaraðgerðunum árið 1990.
Skýrsluhöfundar komust að því að fjórir eldar voru kveiktir víðs vegar um skipið. Sá sem hingað til hefur verið grunaður um að eiga sök á eldsvoðanum lést í þeim eldi sem kveiktur var annar í röðinni.
Nú hefur hins vegar komið í ljós að um tryggingasvindl var að ræða og að í það minnsta þrír úr áhöfn skipsins komu að máli.
Til að tryggja að eldurinn myndi magnast upp áttu skipsverjarnir við loftræstingakerfi og eldvarnarhurðir.
Slysið var 7. apríl árið 1990 í Skagerak er ferjan var á siglingu milli Óslóar og Fredrikshavn.
Skýrslan var kynnt í Noregi í dag.
Í frétt NRK segir að lögreglan sé gagnrýnd fyrir rannsókn málsins á sínum tíma. Í fréttinni segir að lögreglustjórinn í Ósló hafi haft samband við nefndina vegna skýrslunnar. Lögreglan muni skoða hana vel áður en brugðist verði við henni.
