04.03.2013 23:03

40 ár frá komu skuttogarans Bjarts NK

Af vef Síldarvinnslunnar:

Prenta  
 
Bjartur NK í prufusiglingu í Japan.
 Bjartur NK í prufusiglingu í Japan.

Klukkan 8:30 að morgni föstudagsins 2. mars 1973 sigldi skuttogarinn Bjartur NK inn Norðfjörð í fyrsta sinn.  Togarinn var fánum prýddur og hafði þarna lokið lengstu samfelldu siglingu norðfirsks skips fyrr og síðar.  Bjartur var smíðaður í Japan og siglingin þaðan til heimahafnar tók 49 sólarhringa og var vegalengdin um 13.150 sjómílur.

Stjórn Síldarvinnslunnar hafði tekið ákvörðun um að láta smíða Bjart í árslok 1971 en þá hafði fengist nokkur reynsla af útgerð skuttogarans Barða NK sem fyrirtækið hafði fest kaup á árið 1970.  Í upphafi gerði Síldarvinnslan út síldveiðiskip en þegar síldin brást þurfti að hyggja að útgerð skipa sem hentuðu til botnfiskveiða og þá var skuttogarinn Barði NK keyptur.  Í upphafi var Bjarti ætlað að leysa Barða af hólmi en að athuguðu máli ákvað stjórn félagsins að gera út báða togarana og reyndar urðu togararnir í eigu fyrirtækisins þrír þegar Birtingur NK bættist í flotann árið 1977.

Árið 1971 hófst fyrir alvöru skuttogaravæðing landsins á vegum stjórnvalda og var þá ákveðið að láta smíða tíu togara í Japan.  Stjórn Síldarvinnslunnar ákvað að festa kaup á einu þessara skipa.  Japanstogararnir voru smíðaðir á tveimur stöðum í Japan, 6 í Muroran og 4 í Niigata.  Bjartur var smíðaður í Niigata.  Þrír aðrir togarar af þessum tíu voru keyptir til Austurlands: Brettingur til Vopnafjarðar, Ljósafell til Fáskrúðsfjarðar og Hvalbakur til Stöðvarfjarðar.

Bjartur NK kemur til heimahafnar í fyrsta sinn 2. mars 1973.  Ljósm. Guðmundur SveinssonMiðvikudaginn 25. október 1972 var togara Síldarvinnslunnar hleypt af stokkunum í Niigata-skipasmíðastöðinni og var honum þá gefið nafnið Bjartur.  Hinn 12. janúar 1973 var skipið síðan afhent Síldarvinnslunni og daginn eftir var lagt af stað í hina löngu siglingu til Íslands.  Á leiðinni til heimahafnar kom Bjartur við í tveimur höfnum: Honolulu á Hawaii og Balboa við Panamaskurðinn.

Bjartur NK þótti afar vel búið skip og voru bundnar við það miklar vonir.  Togarinn var 461 tonn að stærð og var aðalvélin 2.000 hestöfl.  Allur véla- og tækjabúnaður í skipinu var japanskur ef undan er skilin talstöðin sem var dönsk.

Íslenskir kaupendur japönskuskipanna höfðu mikil áhrif á hvaða tæki og búnaður voru sett í þau og eins réðu þeir miklu um allt fyrirkomulag um borð.

Gott karfahol tekið um borð í Bjart NK.  Ljósm. Gunnar ÞorsteinssonÚtgerð Bjarts hefur gengið vel frá upphafi og hefur ekki þótt vera ástæða til að gera miklar breytingar á skipinu.  Árið 1984 var þó sett í skipið ný aðalvél sem var 2.413 hestöfl og árið 2004 hélt Bjartur til Póllands þar sem meiriháttar viðhaldsverkefnum var sinnt.  Í Póllandi var endurnýjað um 30 tonn af stáli í skipinu (skutrenna, trolldekk ásamt hluta af afturskipi).  Þá var skipið einnig sandblásið.

Afli Bjarts NK til áramóta 2012-2013 er nákvæmlega 127.003 tonn.  Ársafli skipsins var mestur árið 1981 eða 4.568 tonn en alls hefur ársaflinn fimm sinnum farið yfir 4.000 tonn.  Minnstur ársafli skipsins var árið 2001, 1.953 tonn, en drjúgan hluta þess árs var skipið í slipp á Akureyri þar sem það var lagfært eftir eldsvoða um borð.  Miðað við núverandi fiskverð má gera ráð fyrir að aflaverðmæti Bjarts á þessu 40 ára tímabili nemi um 25 milljörðum króna.

Bjartur hefur tekið virkan þátt í togararalli Hafrannsóknastofnunar og hefur enginn annar togari tekið jafn oft þátt í því.  Hann er um þessar mundir í sínu 24. ralli.

Eftirtaldir hafa verið skipstjórar á Bjarti:

  • Magni Kristjánsson           1973-1976
  • Sveinn Benediktsson        1976-1991
  • Birgir Sigurjónsson           1991-2006
  • Jón Hlífar Aðalsteinsson   2006-2011
  • Steinþór Hálfdanarson      2011-

Magni Kristjánsson var fyrsti skipstjórinn á Bjarti NK og sótti togarann til Japan á sínum tíma.  Hann segir eftirfarandi um skipið:

Þegar áætlað var að smíði skipsins kæmist á lokastig, héldum við Sigurður Jónsson vélstjóri til Japan.  Konan mín, Sigríður Guðbjartsdóttir, var með í för.  Dvölin í Japan varð lengri en áformað var m.a. vegna deilna um yfirvinnu í skipasmíðastöðinni sem leiddi til seinkunar á afhendingu skipsins.

Bjartur NK heldur af stað frá Hawaii.  Ljósm. Magni KristjánssonFyrstu tvær vikurnar sem við dvöldum í Japan ferðuðumst við um og nutum gestrisni heimamanna en næstu sjö vikurnar var fylgst með smíði skipsins.  Okkur varð strax ljóst að þarna var í smíðum sterkt og vandað skip og það var einstaklega þægilegt að vinna með Japönunum.  Þeir framkvæmdu allt í skipinu samkvæmt teikningum.  Við fórum í skoðunarferð um skipið tvisvar á dag, klukkan 9 á morgnana og 2 eftir hádegi.  Í þessum skoðunarferðum skráðum við athugasemdir og yfir þær var farið á fundi klukkan 4.  Ávallt var orðið við öllum okkar beiðnum og gerðar nýjar teikningar þar sem tillit var tekið til athugasemdanna.  Þessar nýju teikningar lágu fyrir daginn eftir.

Allar framkvæmdir um borð í skipinu gengu hratt fyrir sig og mörgum verkefnum sinnt samtímis.  Ávallt var þrifið eftir starfsmennina jafnóðum og voru konur sem sinntu því verki.  Voru þær klæddar í sérstaka búninga sem litu út eins og geimfarabúningar enda oft mikið ryk í loftinu þegar þrifið var.

Magni Kristjánsson skipstjóri á Bjarti NK í suðurhöfum.Siglingin frá Japan til Íslands var tilbreytingalítil.  Yfirleitt gott veður og of heitt.  Á siglingunni um höfin sáum við einungis tvisvar skip; flutningadall á Kyrrahafi og japanskt fiskiskip í Þanghafinu.  Við komum aðeins við á tveimur stöðum á leiðinni; í Honolulu á Hawaii og Balboa við Panamaskurðinn.  Nokkru áður en við komum til Honolulu hófst eldgosið í Heimaey og þegar við náðum landi á Hawaii eyddum við miklum tíma í að reyna að ná símasambandi til Íslands m.a. til að fá fréttir af gosinu.  Fyrsta myndin sem ég sá frá eldgosinu birtist í blaði í Honululu á meðan við stöldruðum þar við.

Eftir 49 sólarhringa siglingu komum við til heimahafnar í Neskaupstað.  Síðan hélt skipið til veiða eftir rúmlega viku stopp.  Bjartur reyndist strax vera gott skip og auðvitað betra en skuttogarinn Barði sem Síldarvinnslan hafði fest kaup á 1970 og ég verið skipstjóri á.  Spilbúnaður á Bjarti var miklu betri og allur aðbúnaður var betri þó svo að vart væri hægt að tala um byltingarkenndar framfarir.

Bjartur NK á siglingu í Panamaskurðinum.  Ljósm. Magni KristjánssonÞað fiskaðist strax vel á Bjart og hann hefur ávallt verið hagkvæmt skip.  Eins og fyrr greinir var vandað til smíði hans og því entist flest um borð afar vel.

Ég hef alla tíð fylgst náið með Bjarti eins og reyndar öllum skipum Síldarvinnslunnar og það fer ekkert á milli mála að þessi japanski togari hefur verið einstaklega farsælt skip.

Bjartur NK siglir inn í Norðfjarðarhöfn einn fagran haustdag árið 2007.  Ljósm. Jóhann Zoëga