22.02.2013 21:34
Ekki króna fékkst upp í 6,2 milljarða kröfur
Skiptum lokið á þrotabúi útgerðarfélagsins A300 frá Húsavík
Útgerðar- og fiskvinnslufélagið A300 ehf. fór illa út úr hruninu og gengistryggðar skuldir þess tvöfölduðust og eigið fé þess þurrkaðist út. Mynd úr safni
Ekki króna fékkst upp í lýstar kröfur í þrotabú fiskverkunar- og útgerðarfélagsins A300 ehf. frá Húsavík sem úrskurðað var gjaldþrota í september 2012. Engar eignir fundust í búinu en lýstar kröfur í það námu ríflega sex þúsund og tvö hundruð milljónum króna samkvæmt tilkynningu um skiptalok í Lögbirtingablaðinu í dag.
A300 ehf. var að fullu í eigu Gunnlaugs Karls Hreinssonar. Samkvæmt síðasta ársreikningi félagsins fyrir árið 2010 segir í áritun endurskoðanda að félagið hafi verið orðið órekstrarhæft þá þegar. Félagið fór illa út úr efnahagshruninu og bendir endurskoðandi á að við hrunið hafi gengistryggðar skuldir félagsins tvöfaldast og eigið fé þurrkast út. „Félagið er því ekki rekstrarhæft nema með aðstoð viðskiptabanka þess.“ Í árslok 2010 var eigið fé félagsins neikvætt um 5 milljarða króna og skammtímaskuldir 7 milljörðum hærri en veltufjármunir segir einnig í áritun endurskoðanda.
Athygli vekur því að fram kemur í skýrslu stjórnar í sama ársreikningi að bátar félagsins, Háey II ÞH 275 og Lágey ÞH 265, voru á árinu 2011 seldir frá félaginu ásamt aflaheimildum. Voru þeir keyptir af félaginu G.P.G. Fiskverkun ehf. sem einmitt er líka að fullu í eigu Gunnlaugs Karls. DV fjallaði árið 2011 um Háey II.
Milljarðaskuldirnar sem sátu eftir í félaginu A300 ehf. verða því afskrifaðar.
