20.02.2013 19:13

Umhverfishætta af stjórnlausu skipi í Atlantshafi

mbl.is:

Gömul mynd af rússneska skemmtiferðaskipinu MV Lyubov Orlova sem rekur nú stjórnlaust um Atlantshafið. stækkaGömul mynd af rússneska skemmtiferðaskipinu MV Lyubov Orlova sem rekur nú stjórnlaust um Atlantshafið. AFP
 

Rússneskt skemmtiferðaskip, sem rekur nú stjórnlaust um Atlantshafið eftir misheppnaða tilraun til að koma því í brotajárn, er yfirvofandi hætta við umhverfið að mati franskra umhverfisverndarsinna.

Skipið, sem er 100 metra langt og nefnt Lyubov Orlova eftir rússneskri kvikmyndastjörnu á 4. áratugnum, rekur um alþjóðlegt hafssvæði undan ströndum Kanada. Tvær misheppnaðar tilraunir hafa verið gerðar til að draga það að landi og koma því í brotajárn.

Engin áhöfn er um borð og engin viðvörunarljós loga. Frönsku umhverfisverndarsamtökin Robin des Bois benda á að verði árekstur eða ef leki komið að skipinu muni eldsneyti, eitraðir vökvar, asbest, kvikasilfur og fleira óendurvinnanleg efni komast út í umhverfið.

Skipið, sem var byggt árið 1976, fór úr höfn í Kanada í togi þann 23. janúar. Til stoða að flytja það til Dóminíska lýðveldisins, en taugin slitnaði eftir einn sólarhring. Birgðaskip fyrir nálæga olíuvinnslu tók það þá í tog en aftur slitnaði taugin.

Ekki er vitað nákvæmlega hvar á haffletinum Lyubov Orlova er núna en sérfræðingar segja að það gæti verið á reki í átt að Írlandi. Skipið hefur staðið yfirgefið í Kanada í tvö ár og kanadísk stjórnvöld segja að það sé ekki á þeirra ábyrgð eftir að það fór út fyrir landhelgi ríkisins.

Áhöfn skipsins, 44 Rússar, varð innlyksa í Kanada í 3 mánuði árið 2010 þegar eigandi þess fór á hausinn. Heimamenn gáfu skipverjunum mat og söfnuðu handa þeim fé svo þær gætu komist aftur til síns heima.