17.02.2013 17:55
70 ár frá Þormóðsslysinu
ruv.is:

Mynd:Shutterstock
Þess er minnst á Bíldudal í dag, að 70 ár eru liðin frá Þormóðsslysinu, þegar vélbáturinn Þormóður fórst og með honum 31 maður, þar af voru 22 frá Bíldudal.
Þormóður var notaður við strandsiglingar, og kom við á Bíldudal og Patreksfirði og tók þar fjölda farþega áður en haldið var áleiðis til Reykjavíkur. Aftakaveður brast á á suðurleiðinni og heyrðist síðast til skipsins síðla kvölds daginn eftir, 17. febrúar, og var þá mikill leki kominn að því. Talið er að það hafi farist við Garðskaga þá um nóttina.
Þetta er eitt mannskæðasta sjólsys Íslandssögunnar og að því leyti átakanlegra en mörg önnur, að þarna fórst tíundi hver maður úr einu litlu plássi. Tuttugu og fjórir karlmenn voru um borð, níu konur og eitt barn. Jakob Hjálmarsson, fyrrverandi dómkirkjuprestur, predikar við guðsþjónustu í Bíldudalskirkju í dag þar sem þessa atburðar verður minnst. Jakob er sjálfur Bílddælingur:
„Það urðu mikil vatnaskil hér á Bíldudal, forystufólkið í atvinnurekstrinum og menningarlífinu hvarf, og það tók langan tíma fyrir staðinn að jafna sig ef það hefur nokkurn tíman verið“, segir Jakob.
Hann segir að mikill sársauki sé á bakvið minningarnar um slysið, enn sé lifandi fólk sem man eftir því: „Við aftur á móti sem fæddumst til að bera nöfn þessa fólks sem fór, við munum þetta aðeins sem sorg foreldra okkar og fólksins í kringum okkur“.
Jakob segir að aldrei hafi verið hægt að tala um þessa atburði nema með mjög almennum orðum: „Og af því að það var ekki gert þá er eins og minningarnar hafi týnst, og jafnvel þegar langur tími var liðinn frá þá voru ekki til nein orð til þess að orða þennan harm og þennan missi. Núna erum við aftur á móti farin að geta rætt þetta á eigin forsendum og við erum að reyna að meta þetta fyrir okkur, hvað gerðist og hvernig þetta fór með fólkið okkar og hvaða áhrif þetta hafði á okkar líf og uppeldi“.
