13.02.2013 20:21

Víkingur AK, á leið á loðnumiðin

Skessuhorn.is

Víkingur AK 100 er á leið á loðnumiðin út af Hornafirði og byrjar væntanlega veiðar seinna í dag. Að sögn Ingimundar Ingimundarsonar rekstrarstjóra skipasviðs HB Granda mun skipið landa til vinnslu í mjölverksmiðjuna á Akranesi. „Ef allt gengur eins og best verður á kosið má búast við honum til löndunar aðfaranótt laugardags,“ sagði Ingimundur í samtali við Skessuhorn. Eins og þekkt er orðið er Víkingi aðeins beitt yfir háloðnuvertíðina, en skipið er orðið 52 ára gamalt. Fyrir þessa vertíð voru gerðar miklar endurbætur á lest Víkings, auk annars hefðbundins viðhalds. Aðspurður sagði Ingimundur að strax og búið var að gefa út heildarkvótann á loðnuna nú í vikunni, 570 þúsund tonnin, hafi allt verið sett á fullt í loðnuveiðunum. Fram að þessu hafi menn verið að horfa til hrognafrystingarinnar sem væntanlega byrjar nú í lok mánaðarins, að geyma hluta kvótans í þá vinnslu; sem er langarðsamasti hluti loðnuvertíðarinnar.

 

 

Gunnar Gunnarsson skipstjóri á Víkingi er með fastan hóp manna í áhöfn, 13 karla, sem hann kallar út með skömmum fyrirvara. Sagt er að það hafi farið allt niður í fjóra tíma frá því Gunnar byrjaði að hóa í mannskapinn frá því að Víkingi var siglt til veiða. „Þeir eru að tala um að árangurinn hafi ekki verið neinn í þetta skiptið. Það hafi tekið átta tíma að ræsa mannskapinn,“ segir Ingimundur og hlær. Víkingur fór frá bryggju á Akranesi klukkan 16 á þriðjudag, kom við í Reykjavík til að taka nót og sigldi svo rakleiðis á miðin fyrir austan. Ef enn væri að finna peningalykt frá bræðslu loðnu á Akranesi, gætu bæjarbúar merkt hana strax í byrjun næstu viku, þegar mjöl og lýsi fara að streyma í tankana. Lyktarmengun verður þó væntanlega engin, þar sem hennar gætir núorðið aðeins þegar brædd er gulldepla eða skemmdur kolmunni.