01.02.2013 22:36
Meiri síldardauði í Kolgrafarfirði?
Svo virðist sem síldardauði í líkingu við það sem gerðist um miðjan desember sé að eiga sér stað á nýjan leik í Kolgrafarfirði á Snæfellsnesi að því er fram kemur á fréttavefnum Skessuhorni. Haft er eftir sjónarvottum sem voru staddir í firðinum síðdegis í dag að þar hafi verið mikið af nýdauðri síld á sömu slóðum og í desember.
Ennfremur er haft eftir öðrum sjónarvotti sem átti leið um Kolgrafarfjörð seint í gærdag að hann hafi séð "kraumandi sjó af hálfdauðri síld og þorsk synda að því er virtist vankaðan í land og drepast." Hugsanlega séu því að skapast aðstæður á nýjan leik eins og þær sem ollu gríðarlegum síldardauða í firðinum fyrir jól.

