30.01.2013 13:21
Brúarfoss rak á trébryggju
mbl.is
![]() |
Brúarfoss © mynd af vef Eimskips |
„Alltaf þegar eitthvað svona gerist þá getur það farið illa,“ segir Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, en betur fór en á horfðist í gær þegar Brúarfoss var að fara úr höfn í Reykjavík. Skipið rak yfir höfnina og lenti á trébryggju við Korngarð. Gekk skuturinn rúma fjóra metra inn í bryggjuna.
Vitað er að stýri Brúarfoss skekktist við þetta og er verið að athuga hvort skipið þurfi að fara í slipp. Ólafur William segir að ekki sé ljóst á þessari stundu nákvæmlega hvað gerðist. „Það má kalla þetta nudd innan hafnar. Skipið var leyst frá og það rak frá Klettagarði og utan í Korngarðanna. Skrúfan var ekki komin inn, eða svaraði ekki, með þessum afleiðingum.“
Ólafur William segir að skipið hafi lent á gamalli trébryggju við endann á Korngörðunum. Þegar um skip af þessari stærðargráðu sé að ræða þurfi ekki mikið til að fara inn í slíka bryggju. „Sem betur fer var þetta bara trébryggja en ekki eitthvað annað.“
Farmur Brúarfoss var fluttur yfir á önnur skip og segir Ólafur að viðskiptavinir ættu ekki að verða varir við atvikið. „Þetta hefur engin áhrif á reksturinn nema ef skipið þarf að fara í slipp þá verða það einhverjar vikur. En við erum með önnur skip í sömu siglingum.“

