25.01.2013 12:33
Geyma hluta kvótans fyrir Japansfrystingu
skessuhorn.is:
|
|
|
|
25. janúar 2013 |
|
„Við erum búnir að veiða um 5.000 tonn af þeim loðnukvóta sem við höfum en fyrst ekki er búið að gefa út meiri kvóta þá ætlum við að geyma þau rúmlega 2.000 tonn, sem við eigum eftir, fyrir frystingu á Japansmarkað,“ sagði Gísli Runólfsson, skipstjóri og útgerðarmaður Bjarna Ólafssonar AK-70 þegar báturinn kom til heimahafnar á Akranesi á gær. Gísli sagði veiðina hafa gengið vel og talsvert hefði verið af loðnu út af Norðausturlandi. „Það er hlýr sjórinn og þessi loðna er stærri og komin nær hrygningarástandi en verið hefur undanfarin ár. Við erum því að vonast til að hún verði með næga hrognafyllingu fyrir Japansmarkað þegar svona vika er af febrúar. Svo erum við auðvitað að vonast til að gefin verði út meiri loðnukvóti því það er ljóst að mun meira er til af loðnu en Hafró fann um daginn. Hún er bara dýpra og í kaldari sjó ennþá,“ sagði Gísli sem skiptist á um skipstjórnina við Runólf bróður sinn. „Svo er bara að vona að makrílkvótinn verði sá sami og var í fyrra. Það er engin ástæða fyrir okkur að gefa neitt eftir í þeim efnum.“ |

