14.01.2013 09:20

Byrjað að smíða nýjan bát fyrir Bolvíkinga

mbl.is:

Þröstur Auðunsson, framkvæmdastjóri Trefja í Hafnarfirði. stækkaÞröstur Auðunsson, framkvæmdastjóri Trefja í Hafnarfirði. mbl.is/Ómar
 

Framleiðslan hjá Trefjum í Hafnarfirði og sala á plastbátum frá fyrirtækinu fóru fram úr áætlunum á nýliðnu ári og útlitið er gott fyrir þetta ár, að sögn Þrastar Auðunssonar framkvæmdastjóra.

Í fyrra afgreiddi fyrirtækið 13 báta til kaupenda undir heitinu Cleopatra og eru þeir 9-15 metra langir. Bátarnir fóru jöfnum höndum til kaupenda hérlendis og erlendis. Innanlands munaði mestu um sölu á þremur stórum bátum til Bolungarvíkur, en erlendis voru kaupendur m.a. í Frakklandi, Grikklandi, Afríku og Noregi.

Í umfjöllun um umsvif Trefja í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að nýlega er hafin smíði á nýjum báti, sem kemur í stað Jónínu Brynju ÍS. Þessi vel útbúni línubátur var afhentur í nóvember, en strandaði og eyðilagðist í Straumnesi eftir aðeins 15 róðra. Þröstur segist vona að nýi báturinn verði afhentur á þriðja ársfjórðungi og kraftur verði settur í smíði bátsins.

Bátarnir hjá Trefjum eru af ýmsum stærðum og gerðum og eru aðlagaðir þörfum viðskiptavinanna.

Bátarnir hjá Trefjum eru af ýmsum stærðum og gerðum og eru aðlagaðir þörfum viðskiptavinanna. mbl.is/Ómar