14.01.2013 09:20
Byrjað að smíða nýjan bát fyrir Bolvíkinga
mbl.is:
Framleiðslan hjá Trefjum í Hafnarfirði og sala á plastbátum frá fyrirtækinu fóru fram úr áætlunum á nýliðnu ári og útlitið er gott fyrir þetta ár, að sögn Þrastar Auðunssonar framkvæmdastjóra.
Í fyrra afgreiddi fyrirtækið 13 báta til kaupenda undir heitinu Cleopatra og eru þeir 9-15 metra langir. Bátarnir fóru jöfnum höndum til kaupenda hérlendis og erlendis. Innanlands munaði mestu um sölu á þremur stórum bátum til Bolungarvíkur, en erlendis voru kaupendur m.a. í Frakklandi, Grikklandi, Afríku og Noregi.
Í umfjöllun um umsvif Trefja í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að nýlega er hafin smíði á nýjum báti, sem kemur í stað Jónínu Brynju ÍS. Þessi vel útbúni línubátur var afhentur í nóvember, en strandaði og eyðilagðist í Straumnesi eftir aðeins 15 róðra. Þröstur segist vona að nýi báturinn verði afhentur á þriðja ársfjórðungi og kraftur verði settur í smíði bátsins.


