14.01.2013 09:16

Bátarnir afhentir hver af öðrum

mbl.is:

Sverrir Bergsson um borð í nýjasta Seiglu-bátnum á Akureyri í síðustu viku. stækkaSverrir Bergsson um borð í nýjasta Seiglu-bátnum á Akureyri í síðustu viku. mbl.is/Skapti
 

Plastbátarnir renna nánast eins og af færibandi hjá Seiglu ehf. á Akureyri þessa dagana. Á rúmlega tveimur vikum verða fjórir bátar sjósettir og fara þrír þeirra til Noregs, sem er eins og áður stærsti markaður fyrirtækisins.

Í umfjöllun um umsvif Seiglu í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að verið sé að smíða 70-80 farþega bát fyrir Færeyinga og meðal verkefna sem eru í farvatninu má nefna smíði íbúða- og þjónustubáta.

Sverrir Bergsson, framkvæmdastjóri og eigandi Seiglu, segir að síðasta ár hafi verið gott hjá fyrirtækinu og næg verkefni séu framundan. Um áramótin var unnið við átta báta í húsakynnum fyrirtækisins. Mest af framleiðslunni fer til erlendra viðskiptavina og á nýliðnu ári var bátur seldur til Danmerkur í fyrsta skipti. Áformað er að setja aukinn kraft í viðskipti innanlands með strandveiðina m.a. í huga.