09.01.2013 23:08
Ný leyfi á allan flugflota Gæslunnar á morgun
mbl.is:
Flugför Landhelgisgæslunnar fá á morgun gefin út ný lofthæfiskírteini. Með þeim á að taka af allan vafa um að flugförin og áhafnir þeirra hafi heimild til þess að fljúga út fyrir 12 mílna landhelgi til að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu innan efnahagslögsögunnar. Fyrir þessu hefur mbl.is heimildir frá Flugmálastjórn Íslands.Þrátt fyrir þetta ítrekar Flugmálastjórn að í nýju reglugerðinni, sem tók gildi um áramót, séu engin takmörk á flugi utan land- og lofthelgi, en að orðalag í núverandi lofthæfisskírteinum valdi í dag misskilningi hvað þetta atriði varðar og því sjái Flugmálastjórn ástæðu til þess að breyta því með útgáfu nýrra flughæfisskilríkja á morgun.
Á við um allan flugflota Gæslunnar
Á þetta við um allan flugflota Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, TF-GNA, TF-SIF og TF-SYN, en síðastnefnda loftfarið er það eina sem hefur leyfi frá EASA, flugöryggisstofnun Evrópu. Hin þrjú, ásamt SYN, starfa öll eftir leyfum frá íslenskum flugmálayfirvöldum frá 1. janúar síðastliðnum.
Mbl.is birti í gærkvöldi frétt þar sem sagt var að eftir breytingu á skráningu loftfara Landhelgisgæslunnar um áramót hafi verið óheimilt að fljúga þeim út fyrir 12 mílna landhelgi. Flugmálastjórn Íslands birti í morgun yfirlýsingu þar sem fram kom að engar breytingar hefðu átt sér stað varðandi leitar- og björgunarhlutverk Landhelgisgæslunnar og flugrekstur á þyrlum hennar sem gætu því flogið innan 200 mílna efnahagslögsögu. Landhelgisgæslan sjálf sagði málið byggt á misskilningi í tilkynningu
Orðalagið hefur ekki fyrr verið mistúlkað
Leitað var svara hjá Flugmálastjórn um hvort ekki hefði verið ástæða til þess að endurskoða flughæfiskilríki flugflota Landhelgisgæslunnar um síðustu áramót, þegar ljóst var að loftförin myndi heyra undir aðra reglugerð. Í svari upplýsingafulltrúa Flugmálastjórnar kom fram að orðalagið hafi áður ekki verið mistúlkað og því sé fyrst nú verið að endurskoða leyfin.

