21.12.2012 09:00
Nýr framúrstefnubátur frá OK Hull í Kópavogi og annar eldri
Um síðustu helgi kom út úr húsi einu í Kópavogi, mjög svo framúrstefnulegur bátur, framleiddur af íslensku fyrirtæki sem nefnist OK Hull, en er nú að breytast í Rafnar.
Hér í þessari færslu birti ég úrdrátt af umfjöllun um fyrirtækið sem birtist á vefsíðu Landhelgisgæslunnar 15. mars sl. er gæslan var með bát frá fyrirtækinu í reynslu.
Þá birtast þrjár myndir sem voru teknar um síðustu helgi af bátnum og síðan ein mynd sem ég tók í Kópavogshöfn fyrir þremur árum af minni bát frá sama fyrirtæki.



Báturinn sem kom út hjá þeim, í Kópavogi um síðustu helgi

7656. O.K. í Kópavogshöfn © mynd Emil Páll, í mars 2009
Þetta mátti lesa á vefsíðu Landhelgisgæslunnar frá 15. mars 2012:
Þróunar- og hönnunarferli íslenska fyrirtækisins OK Hull hefur staðið yfir frá árinu 2005 og sótt hefur verið um einkaleyfi á hönnuninni á skrokklaginu sem mun nýtast öllum tegundum báta og skipa, hvort sem um ræðir skemmtibáta, vinnubáta, varðskip, skip til fiskveiða eða ferjuflutninga. Um er að ræða íslenska nýsköpun og mun fyrirtækið nú í ár kynna sex útgáfur fullbúinna báta á markaðinn, þ.e. þrjár útgáfur af 6 metra fjölnotabát, tvær útgáfur af 10 metra harðbotna slöngubát og 15 metra snekkju sem ætluð er til lengri og skemmri skemmti- og könnunarferða. Aðrar stærðir og tegundir eru á teikniborðinu og munu verða kynntar í náinni framtíð.
OK Hull hefur vaxið hratt og starfa nú 35 manns hjá fyrirtækinu við hönnun, prófanir, smíði og framleiðslu. Gert er ráð fyrir að 50 manns verði þar við störf í árslok 2012. OK Hull er staðsett í 2400 fm húsnæði við Vesturvör í Kópavogi og á næstu mánuðum verður tekin í notkun 4500 fm bygging á sama stað. Ennfremur áætlar fyrirtækið byggingu 6000 fm húsnæðis sem mun í framtíðinni hýsa stærstan hluta starfseminnar. ( ath. þetta er skrifað í mars sl.)
