19.12.2012 19:57
Fækkun veiðidaga og mikið óselt af grásleppuhrognum
skessuhorn.is:
|
Landssamband smábátaeiganda hefur beint þeim tilmælum til atvinnu- og nýsköpunarráðherra að veiðidögum á grásleppu verði fækkað í 35 á næsta ári, en þeir voru 50 á síðustu vertíð. Þetta gerir LS vegna sölutregðu á grásleppuhrognum, en enn eru óseld í landinu 30% af hrognum frá síðustu vertíð með tilheyrandi tekjutapi fyrir grásleppusjómenn, sem einnig þurfa að borga geymslugjald vegna óseldra afurða. LS, með liðsinni íslenskra stjórnvalda, hafa óskað eftir því við Grænlendinga að þeir dragi einnig úr sínum veiðum til að koma á jafnvægi á heimsmarkaði með grásleppuhrogn. Þessar tvær þjóðir veiða langmest ásamt Kanadamönnum og Norðmönnum.
|
|
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssamband smábátaeigenda, segir að mjög alvarleg staða blasi við grásleppusjómönnum, með mikið magn í óseldum birgðum. Óseld hrogn séu að verðmæti 500-700 milljónir eftir því hvort miðað sé við útflutningaverðmæti síðasta árs eða lægsta verð á síðustu vertíðar. Örn segir að ef ekki seljist verulegt magn birgða í ársbyrjun blasi við alvarleg staða hjá grásleppubændum sem sitji uppi með kostnað frá síðustu vertíð, en margir þeirra hafi sínar aðaltekjur af grásleppuveiðum. Örn telur að margir muni ekki fara til veiða næsta vor með óseldar birgðir og ljóst að bátum muni fækka verulega á grásleppuveiðum, en 340 bátar voru gerðir út til veiða á síðustu vertíð. „Það er íhugunarefni hvort yfir höfuð eigi að hefja næstu vertíð fyrr en allt er selt,“ segir Örn. Aðspurður sagði hann að hlutfallslega væri minna óselt af hrognum frá útgerðarstöðum á Vesturlandi, en fyrir norðan og austan.
Atvinnu- og nýsköpunarráðherra hefur gefið það út í viðræðum við hagsmunaaðila að ekki sé einungis þörf á að fækka veiðidögum á grásleppu vegna sölutregðunnar heldur einnig vegna ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar, sem leggur til að aðeins verði veitt í 3.500 tunnur á næstu vertíð, en á síðustu vertíð voru þær 12.200. Hafró segir m.a. vísitölu grásleppu og rauðmaga hafa lækkað verulega síðustu ár. |

