13.12.2012 22:16
Svefn skipverja hefur oft valdið strandi
Rúv. is:
![]() |
Nefndin hefur á undanförnum árum aftur og aftur vakið athygli á þessu vandamáli og ekki að ástæðulausu. Síðan árið 2000 hafa 27 bátar og skip strandað hér við land, vegna þess að stjórnendur sváfu á verðinum. Þeir voru að meðaltali búnir að vaka í næstum heilan sólarhring áður en bátur þeirra strandaði, í einu tilvikinu hafði stjórnandi ekki hvílst í næstum tvo sólarhringa.
Í rannsóknarskýrslum nefndarinnar um þessi óhöpp má sjá endurteknar athugasemdir og ábendingar - að skipverjar þurfi nægilega hvíld, að rekja megi orsök strands til vinnuálags, skipstjóri sofnaði við stjórn bátsins, og það virðist hafa komið oft fyrir að stjórnendur virkjuðu ekki viðvörunarbúnað sem þó er í leiðsögutækjum og dýptarmælum. Það gerðist til dæmis þegar báturinn Pétur Konn strandaði í júlí 2007, nánast á sama stað og Jónína Brynja í nóvember. Í Jónínu var viðvörunarbúnaður heldur ekki í gangi, þótt þar væri nýjasta tækni til staðar.
Eftir því sem næst verður komist fórst enginn eða meiddist alvarlega þegar þessir 27 bátar sigldu upp í land vegna sofandaháttar stjórnenda en eftir mörg þessi óhöpp hafa björgunarsveitir verið kallaðar til, eins og þegar Jónína Brynja strandaði og tjónið hleypur á hundruðum milljóna króna.

