13.12.2012 18:59
Hnúfubakar gerir sjómönnum lífið leitt
mbl.is:
„Það er búin að vera óhemju netavinna í þessari veiðiferð. Rifið í svo til hverju kasti og nánast alltaf vegna þess að hvalir höfðu lent í nótinni,“ segir Halldór Jónasson, annar stýrimaður á Lundey NS, en skipið er nú á leið til Vopnafjarðar með um 650 tonn af loðnu eftir langa og stranga veiðiferð.
Hnúfubakavöður á loðnumiðunum norður af Vestfjörðum hafa gert sjómönnum lífið leitt síðustu dagana en sennilega hafa fáir farið jafn illa út úr ágangi hvalanna og áhöfnin á Lundey, segir í frétt á vef HB Granda.
Að sögn Halldórs rifnaði nótin a.m.k. fjórum til fimm sinnum vegna þess að hnúfubakar, sem voru að eltast við loðnu, lentu inni í henni þegar kastað var. Erfitt er að forðast hvalina því loðnan hefur aðeins gefið sig til á meðan myrkurs nýtur.
„Menn verða ekkert varir við þetta fyrr en nótin er að lokast. Þá heyrir maður blásturinn í hnúfubökunum og síðan láta þeir sig vaða út og rífa allt í hengla. Ef við vorum svo heppnir að fá ekki hval í nótina þá komu þeir stundum utan á pokann. Sennilega hefur forvitnin ein búið þar að baki,“ sagði Halldór sem býst við því að Lundey komi til hafnar á Vopnafirði seinni hluta nætur eða snemma í fyrramálið.

