26.11.2012 22:08
Baldur til Eyja á versta tíma
bb.is:
Engar ferjusiglingar eru þessa dagana yfir Breiðafjörð milli Brjánslækjar og Stykkishólms. Breiðafjarðarferjan Baldur hefur verið send suður fyrir land til að hlaupa í skarðið fyrir Herjólf. Vestmannaeyjaferjan er nú í slipp, en skrúfur skipsins eru laskaðar eftir að árekstur við grjótgarðinn við Landeyjarhöfn. Íbúar í suðursvæði Vestfjarða eru að vonum uggandi vegna þessa og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar er afar áhyggjufull vegna ástandsins.
„Við höfum að sjálfsögðu mikla samúð með Vestmannaeyingum og skiljum að nauðsynlegt sé að hafa siglingar milli lands og eyja. Þetta ítrekar mikilvægi þess að ný Vestmannaeyjaferja verði keypt hið snarasta til að leysa Herjólf af hólmi enda höfnin ekki hönnuð með núverandi skip í huga. Við eigum hins vegar mjög erfitt með að vera án Baldurs, nú um hávetur þegar allra veðra er von. Þetta er eins og ísköld, blaut tuska framan í andlitið á íbúum hér á þessu svæði frá Vegagerðinni,“ segir Ásthildur í samtali við blaðið.
„Vegagerðin heldur því fram að þetta taki um 10 daga en ég hef miklar áhyggjur að Baldur verði í burtu í margar vikur vegna umfangs skemmdanna á Herjólfi. Það yrði hræðilegt. Fyrirtækin á svæðinu treysta á Baldur með daglega flutninga með fisk og aðrar vörur til og frá svæðinu.“ Ásthildur segir samgöngur með Baldri afar mikilvægar atvinnulífinu og íbúum, sérstaklega þegar litlar sem engar bætur eru gerðar á handónýtum vegum til og frá Vestfjörðum. Tíðin undanfarið hefur verið þannig að ófært verður á augabragði þegar snjóar og hreyfir vind og ekki þjónusta á vegunum alla daga.
„Vegagerðin telur sig reyndar sjá fram í tímann með veður og segir að það verði „einstök tíð“ næstu vikur skv. erlendum veðurstofum. Þessi fullyrðing Vegagerðarinnar er í besta falli hlægileg, það vita þeir sem þekkja vestfirskt veður. Við höfum gert kröfu um sólarhringsþjónustu á vegunum á meðan Baldur er í burtu en Vegagerðin hefur ekkert gefið út um það, sem er náttúrulega óboðlegt af þeirra hálfu. Ég hef rætt við innanríkisráðherra, þingmenn og vegamálastjóra vegna þessa ástands og ég bíð þess að heyra hvað samgönguyfirvöld í landinu ætla að bjóða okkur uppá á næstunni. Ég vona að það verði ekki sömu trakteringar og við höfum fengið varðandi samgöngubætur hingað til. Framtíðarlausnir liggja í þverun fjarðanna með vegi um láglendi en ekki heiðar og fjallaskörð,“ segir Ásthildur.
