01.11.2012 19:09

Kaupa 1000 tonn af þorskkvóta

ruv.is

 

Kvótinn var færður á Hvanney SF og Skinney SF.

Skinney-Þinganes hefur keypt þúsund tonna þorskkvóta af Brimi. Verðmæti kvótans nemur ríflega tveimur milljörðum króna. Þrjú ár eru síðan Landsbankinn afskrifaði 2,6 milljarða króna af skuldum dótturfélags Skinneyjar-Þinganess.

Kvótinn kemur af Tjaldi SH

Kaupin gengu í gegn í september og Fiskistofa hefur staðfest þau. Megnið af þorskkvótanum kemur upphaflega frá Rifi á Snæfellsnesi, af Tjaldi SH, sem er í eigu KG Fiskverkunar. KG er í meirihlutaeigu Hjálmars Þórs Kristjánssonar, bróður Guðmundar Kristjánssonar, sem kenndur er við Brim.

Þann 26. september var, samkvæmt vef Fiskistofu, tæplega 900 tonna þorskkvóti færður af Tjaldi yfir á Sólborgina RE, sem er í eigu Brims. Sama dag var þúsund tonna þorskkvóti færður yfir á tvö skip, Hvanney SF og Skinney SF, sem bæði eru í eigu Skinneyjar-Þinganess og með heimahöfn í Hornafirði.

Kunnugir segja að kílóverð á þorskkvóta sé í það minnsta 2.100 krónur, geti jafnvel slagað hátt í 2.500 krónur. Því má telja líklegt að Skinney-Þinganes hafi greitt frá tveimur milljörðum króna upp í tvo og hálfan milljarð fyrir kvótann.

2,6 milljarðar afskrifaðir

Þrjú ár eru frá því að Landsbankinn afskrifaði ríflega tvo og hálfan milljarð króna hjá dótturfélagi Skinneyjar Þinganess. Sama ár skilaði fyrirtækið 3,6 milljarða króna hagnaði sem stjórnendur fyrirtækisins sögðu að hluta til skýrast af þessum afskriftum.

Fyrirtækið skilaði einnig hagnaði árið 2010. Þá nam hann rúmum einum og hálfum milljarði króna. Hvernig fyrirtækinu gekk í fyrra hefur fréttastofa ekki vitneskju um þar sem það hefur ekki skilað ársreikningi til ársreikningaskrár fyrir það ár þótt frestur til þess hafi runnið út í ágúst.

AF FACEBOOK:

 
Emil Páll Jónsson Samkvæmt öðrum upplýsingum mun hér vera um að ræða 56% af kvóta Tjalds og fer fjármagnið í að fjármagna nýja togarann sem Brim er að kaupa