14.10.2012 16:29

Forstjóri Hafró segir brottkast nauðsynlegt

dv.is

Hirða ekki allan fisk

Okkur þykir bagalegt ef við erum að nauðsynjalausu að láta fisk fara frá borði, og það er náttúrulega hlutur sem við tökum stíft á innanhúss. En ég geri ráð fyrir því að það séu einhverjar gildar ástæður fyrir þessu, segir Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar. DV.is sagði frá því á miðvikudag að mikið brottkast hafi verið á afla í rannsóknarleiðangri skipsins Bjarna Sæmundssonar 2. október síðastliðinn.

"Það var um það bil helmingnum af aflanum af tveimur holum kastað fyrir borð, eða tæplega tveimur tonnum," sagði Björn Sverrisson, nemandi í sjávarútvegsfræðum sem fór þann túrinn með skipinu. Jóhann segir að tvennt þurfi að hafa í huga varðandi slíkt brottkast. "Við þurfum náttúrulega að lágmarka þetta, en það geta bæði orðið í slys í þessum efnum og eins eru takmarkaðir
möguleikar til þess að hirða allan fisk. Þessi rannsóknarskip eru ekki hönnuð til vinnslu sjávarafurða almennt, þau eru hönnuð til rannsókna. Það er náttúrulega ekki fræðilegur möguleiki að við getum tekið allan hirðanlegan afla um borð. Þetta er hlutur sem við getum ekki komið í veg fyrir, ef við eigum að vera að stunda okkar rannsóknir."

Jóhann segir að hjá Hafró sé nú unnið að því að bæta aðstöðu í rannsóknarskipunum. "Við höfum verið að bæta aðstöðu undanfarið, til dæmis í Árna Friðrikssyni, núna í byrjun ársins settum við nýjan krapabúnað um borð í skipið, og við höfum verið með tæknifræðing undanfarna mánuði að skoða hvað við getum gert til þess að bæta okkar möguleika til þess að fara vel með afla sem kemur um borð. Þannig að okkur finnst mikilvægt að gera þetta eins vel og við getum. Við eigum auðvitað að vanda okkur."


Af Facebook:

Þorgrímur Ómar Tavsen Ég var einn mánuð á Bjarna Sæmundssyni og hef alldrei tekið þátt í eins miklu brottkasti á fiski og seð eins mikla sóun á mat.Ef ekki er hægt að hirða aflan þá er að fá ser skip sem það geta,því það gildir sama um þessi skip og önnur sem veiða við Ísland.