Útgerðarfyrirtækið Kæja ehf, sem
gerir út stálskipið Portland VE, er til sölu með um 250
þorskígildistonnum. Benóný Benónýsson, aðaleigandi útgerðarinnar segir
ástæðuna fyrir hugsanlegri sölu einfalda, litlu útgerðarfyrirtækin eins
og fyrirtæki hans, ráði einfaldlega ekki við aukið veiðigjald sem
ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir lagði á sjávarútveginn á nýhöfnu
kvótaári.
04.10.2012 13:13
Portland, sem í upphafi var Víðir II GK 275, til sölu
Eyjafréttir.is
- Ráðum ekki við nýja veiðigjaldið segir Benóný Benónýsson, eigandi útgerðarinnar sem óttast að fleiri eigi eftir að selja
"Þetta er ekkert leyndarmál, við erum
að skoða hvað við getum gert og höfum sett fyrirtækið í heild sinni á
sölu. Við erum einfaldlega með allt of lítinn kvóta til að geta staðið
undir auknum álögum hins opinbera og þar vegur veiðigjaldið lang
þyngst. Rekstur útgerðarinnar var í þokkalegu standi á síðasta
fiskveiðiári, við höfðum okkar laun út úr þessu en ekki mikið meira en
það," sagði Benóný sem hefur rekið útgerðina ásamt tveimur sonum sínum.
"Ég
er ansi hræddur um að fleiri útgerðir í þessum stærðarflokki eigi
hreinlega eftir að þurrkast út og þeir stóru fái meira í sinn hlut. Ég
hélt að það væri ekki samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinnar en að þessu
hefur hún stuðlað með nýju veiðigjaldi. Þetta bitnar verst á smærri
útgerðum."
Hafið þið fengið einhver tilboð í útgerðina, skipið eða kvótann?
"Nei,
þetta er allt á frumstigi ennþá. Við erum með aðila í að sjá um þetta
fyrir okkur en það var samhljóma álit okkar í fjölskyldunni að fara
þessa leið. Ég er með peyjana með mér í þessu og þeir hafa tekið við
þessu að miklu leyti en þeir voru sammála um að þetta væri eina leiðin
miðað við núverandi ástand. Eitthvað þurftum við að gera, annað hvort
að selja eða bæta við okkur kvóta og það kaupir enginn kvóta í dag nema
þessir stóru. Helst hefði maður viljað hafa þessar einstaklingsútgerðir
áfram því það skapast mikil vinna í kringum þær, bæði við útgerðina og
þjónustu í kringum þær. En ég er hræddur um að þessum smærri útgerðum
eigi eftir að fækka ef ekkert verður gert."
Eru þið búnir að bjóða öðrum útgerðum í Eyjum kvótann?
"Ekki ennþá en sá aðili sem sér um söluna hefur fengið þau skilaboð að leita eftir því að selja hér innanbæjar, sé þess kostur."
Fleiri huga að sölu
Eyjafréttir
heyrðu hljóðið í fleiri útgerðarmönnum og flestir segja að nýtt
veiðigjald sé of stór biti fyrir smærri útgerðir. Einhverjir sögðu að
það gæti farið svo að þeir myndu selja útgerðina miðað við núverandi
ástand enda rekstrargrundvellinum kippt undan þeim með veiðigjaldinu.
Skrifað af Emil Páli

