02.10.2012 21:05
Æfingin Northern Challenge stendur yfir
Miðvikudagur 2. október 2012
Nú stendur yfir Northern Challenge, fjölþjóðleg æfing sprengjusérfræðinga á Keflavíkurflugvelli og á fyrrum varnarsvæðum utan hans, í höfninni í Helguvík, Patterson svæðinu og í Hvalfirði. Æfingin er haldin hér á landi í tólfta sinn en að henni standa Landhelgisgæsla Íslands og NATO. Að þessu sinni taka tíu þjóðir með um tvö hundruð liðsmenn þátt í æfingunni en þær eru auk Íslands: Danmörk, Noregur, Svíþjóð, Þýskaland, Holland, Belgía, Frakkland, Austurríki og Bandaríkin.
Tilgangur Northern Challenge er að æfa viðbrögð við hryðjuverkatilfellum þar sem heimatilbúnum sprengjum hefur verið komið fyrir. Búinn er til samskonar búnaður og fundist hefur víðsvegar um heim og aðstæður hafðar eins raunverulegar og hægt er. Einnig er rannsóknarþátturinn tekinn fyrir þar sem ákveðin teymi hafa einungis þann tilgang að rannsaka vettvang og fara yfir sönnunargögn.
Reynslan frá æfingum þessum hefur gert starfsmönnum Landhelgisgæslunnar kleift að fara utan sem friðargæsluliðar til að taka þátt í mannúðarstarfi sem unnið hefur verið í Líbanon og Írak. Þar hefur starf sprengjusérfræðinga falist í að hreinsa sprengjur af átakasvæðum og er það mikilvægur þáttur í uppbyggingarstarfi því sem fer fram til að skapa friðvænleg skilyrði til framtíðar. Víða er mikið starf óunnið. Talið er að 90% þeirra sem látast af völdum sprengja á átakasvæðum séu börn. Mjög mikilvægt er að þjóðir sameinist í hreinsun svæðanna en slík hreinsun er eðli málsins samkvæmt hættuleg og mikilvægt er að rétt sé að verki staðið.
Margir aðrir aðilar frá Landhelgisgæslunni sem og öðrum íslenskum stofnunum koma að framkvæmdinni, má þar nefna þyrludeild, köfunardeild, varðskipadeild, Ríkislögreglustjóra, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar.
Mynd fyrir ofan © Doug Elsey.
Áhöfn TF GNA tók þátt í æfingunni.Mynd © Þorgeir Baldursson.

Varðskipið Týr í Helguvík. Mynd © Þorgeir Baldursson.

Leitað að sprengju í höfninni. Mynd © Doug Elsey.

Ýmsar tegundir af "róbotum" eru notaðir á æfingunni. Mynd © Doug Elsey.

Aðstæður á svæðinu henta sérstaklega vel fyrir æfinguna. Mynd © Doug Elsey.

Skipulagning leitar. Mynd © Doug Elsey.

