05.09.2012 07:07

Stafnesið í bíóleik í mánuð

Enginn sem lesið hefur þessa síðu þarf að undrast þessa frétt, en nú fyrst ratar hún inn á síðu stóru fjölmiðlana og svona birtist hun á ruv.is í gær

Stiller leigir Stafnesið í mánuð

Stafnesið í Grundarfirði. Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson.

Hið 48 ára gamla fjölveiðiskip Stafnes KE 130 leikur stórt hlutverk í kvikmyndinni The Secret Life of Walter Mitty sem Ben Stiller er að gera hér á landi. Leikarinn leigir skipið í heilan mánuð og skipstjórinn Oddur Sæmundsson segir þetta vera ágætis tilbreytingu frá hefðbundum sjómmannsstörfum.

Stiller og hans aðstoðarfólk komu auga á Stafnesið strax í janúar og komu þá að máli við Odd til að fá afnot af skipinu. Oddur hafði gert sér vonir um að geta málað skipið í voru og gera það fínt en fólkið frá Hollywood bað hann um að fresta öllum slíkum framkvæmdum. "Þeir eru búnir að gera bátinn alveg ægilega ljótan," segir Oddur í samtali við fréttastofu. 

Allar breytingar sem gerðar voru á bátnum verða hins vegar lagfærðar og Oddur hrósar tökuliðinu fyrir mikla fagmennsku. "Þeir tóku myndir af öllu og þessu verður öllu komið í upprunalegt horf." Oddur segist ekki hafa verið tregur til þegar Stiller falaðist eftir bátnum og segist fá ágætan pening fyrir afnotin. "Við erum náttúrlega ekkert að veiða á meðan og þetta slítur náttúrlega vertíðina aðeins í sundur.  Þetta er hins vegar bara verkefni sem við erum bundnir við," segir Oddur en Stafnesið tók meðal annars þátt í umfangsmiklum tökum í Grundarfirði um helgina.

Oddur hefur hitt Ben Stiller og segir leikarann vera skemmtilegan náunga, ekki fari fyrir neinum stjörnustælum og hann virðist vita upp á hár hvað hann sé að gera. "Mér finnst mjög gaman að taka þátt í þessu, stundum er mikið að gera en svo þarf maður að bíða þess á milli," segir Oddur en leikarinn birti í dag mynd af íslenskum þríburum á twitter-síðu sinni sem hann segir að leiki í myndinni

Stafnesið leikur reyndar grænlenskt skip í myndinni sem gert er út frá Nuuk. Oddur og hans menn var gert að skrifa undir stíft trúnaðarsamkomulag og því má hann ekki ræða tökurnar né í hvers konar atriðum báturinn hefur verið. Stiller verður með Stafnesið á leigu til 28.september og þegar kvikmyndaverkefninu lýkur heldur skipið á túnfiskveiðar. "Ísland fékk 25 tonn og leyfi til að senda eitt skip á veiðar og við vorum dregnir út," segir Oddur.