24.08.2012 16:23

Lúxusskip á Ísafirði

Oriana rétt fyrir utan Sydney. Mynd: whitestar.co.za.
Oriana rétt fyrir utan Sydney. Mynd: whitestar.co.za.


Samkvæmt frétt í bb.is eiga ríflega 4.600 ferðamenn  eftir að sækja Ísafjörð heim með skemmtiferðaskipum áður en vertíðinni lýkur þetta sumarið. Fimm skip eiga eftir að koma og kom eitt þeirra í morgun. Um var að ræða skemmtiferðaskipið Oriana sem er tæplega 70.000 tonn að stærð og ber ríflega 2.100 farþega. Oriana kemur á vegum Carnival skipafélagsins, sem er stærsta skemmtiferðaskipafélag heimsins og telst Oriana meðal mestu lúxusskipa í heimi.

Á þriðjudag er von á Prinsendam sem er tæplega 38.000 tonn og ber um 800 farþega. Daginn eftir er svo von á Quest for an adventure sem oft hefur heimsótt Ísafjörð á fyrri árum undir nafninu Saga Pearl II. Skipið, sem er rúmlega 18.500 brúttótonn að stærð, var smíðað árið 1981 og hefur siglt um allan heim undanfarna þrjá áratugi og hét áður Astoria.

Síðasta skip mánaðarins er svo Boudicca, sem einnig heimsótti Ísafjörð um verslunarmannahelgina, en það er rúm 28.000 tonn og ber 900 farþega og er væntanlegt 30. ágúst. Eins er eitt skip væntanlegt í september en það er hið tæplega 12.000 tonna MV Fram sem ber um 280 farþega.

Alls hafa þá tæplega 30.000 manns ferðast til Vestfjarða með 30 skemmtiferðaskipum í sumar. Þá stefnir í enn stærra sumar 2013 en eins og fram hefur komið hefur Carnival lagt inn pöntum fyrir sex skip það árið; Aurora, Arcadia, Oriana, Queen Victoria og Queen Elizabeth. Aida Cruises skipafélagið mun einnig hefja siglingar til Ísafjarðar sumarið 2013, en félagið er eitt það stærsta í Evrópu. Þessu til viðbótar hafa reglulegir viðskipavinir Ísafjarðarhafnar þegar byrjað að bóka komur sínar árið 2013.