02.08.2012 13:38

Bátur strandar við Höfðann

Af vefsíðu Björgunarsveitarinnar Strönd, á Skagaströnd:

Björgunarsveitin Strönd á Skagaströnd var kölluð út 15:16 í gær,  vegna báts sem strandað hafði norðan við Höfðann á móts við bæinn Réttarholt. Einn var um borð í bátnum og var hann lítillega meiddur á hendi en að öðru leiti í lagi. Var farið á Aðalbjörgu og maðurinn sóttur og honum ekið á sjúkrahúsið á Blönduósi þar sem gert var að sárum hans. 

Báturinn sem er rétt tæplega 8 tonna plastbátur virðist við fyrstu sýn hafa sloppið við skemmdir og var ekki mjög  fastur þar sem hann lá. Nánast háfjara var þegar óhappið átti sér stað og losnaði báturinn um leið og fór að falla að aftur.  Aðalbjörgin dró bátinn út fyrir mestu grynningarnar og þar tók Húnabjörg hann í tog og dró hann til hafnar. 


               Húnabjörg og Aðalbjörg á leið í land með bátinn.   Mynd: Árni Geir Ingvarsson