01.08.2012 08:39
Hindra losun og lestun Helgafells á Grundartanga
Sjómannafélag Íslands setti í gær bann við losun og lestun Helgafells og fylgdu því eftir við Grundartanga.
mbl.is/Sigurgeir S.
Sjómannafélag Íslands setti í gær bann við losun og lestun m/s Helgafells, skips Samskipa. Félagsmenn og stjórn Sjómannafélagsins fylgdu banninu eftir í gærkvöldi er skipið lá við hafnarbakka á Grundartanga. Aðilar ræddu fram á nótt um mögulega lausn.
Helgafell er á alþjóðlegu færeysku skipaskránni en áhöfnin er íslensk. Nýlega voru tveir erlendir hásetar ráðnir á skipið. Sjómannafélagið vísar til kjarasamnings félagsins við Samtök atvinnulífsins þar sem segir að fullgildir félagar Sjómannafélags Íslands skuli starfa á skipunum.
Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélagsins, segir að hásetarnir tveir séu hvorki félagar í Sjómannafélagi Íslands né þiggi laun samkvæmt íslenskum kjarasamningum. Laun þeirra séu aðeins um fimmtungur af launum félagsmanna. Sjómannafélagið telur að ráðning mannanna sé skýlaust brot á kjarasamningnum.
